Lovísa og Gunnar létu drauminn rætast

Lovísa og Gunnar hafa verið búsett í New York, ásamt …
Lovísa og Gunnar hafa verið búsett í New York, ásamt börnunum sínum, síðastliðin þrjú ár. Ljósmynd/Lovísa Falsdóttir

„Fólki fannst við ekki með réttu ráði að flytja hingað í miðjum heimsfaraldri, en við einhvern veginn gátum ekki hugsað okkur að vera á elliheimilinu og hugsa, hvað ef við hefðum farið út?“ segir Lovísa Falsdóttir, sem búsett er í New York borg ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Þorsteinssyni, og þremur börnum þeirra.

Gunnar og Lovísa fluttu til New York, ásamt strákunum sínum tveimur, í byrjun árs 2021. Þau höfðu ráðgert að vera búsett þar í eitt ár á meðan Gunnar stundaði mastersnám í orkuverkfræði, en hafa nú ílengst þar í að verða þrjú ár. Síðan þá hefur bæst við fjölskylduna, Gunnar er farinn að stunda doktorsnám og lífið í stórborginni farið að iða á ný.

Setti öll plön í uppnám

„Upphaflega komum við hingað því ég var að fara í mastersnám í orkuverkfræði,“ segir Gunnar. Hann hafði klárað B.S. nám í jarðeðlisfræði heima á Íslandi, en langaði að stunda frekara nám erlendis.

Gunnar komst inn í Columbia háskólann í febrúar árið 2020 og ráðgerði fjölskyldan að flytja vestanhafs í september sama ár. „Svo gerðist svolítið í millitíðinni. Allt haustmisserið var í fjarkennslu og ég var ekki tilbúinn í það,“ segir Gunnar. Fjölskyldan frestaði því flutningum fram í janúar árið 2021.

Flóki og Marel una sér vel í stórborginni.
Flóki og Marel una sér vel í stórborginni. Ljósmynd/Lovísa Falsdóttir

„Má ég krydda aðeins áður en þú heldur áfram?“ spyr Lovísa en Gunnar biður um að fá að klára frásögnina. „Þú talar örugglega meira en ég,“ segir hann og við hlæjum öll.

Gunnar heldur því frásögninni áfram, en fer þó heldur hratt yfir sögu að mati blaðamanns sem gefur því Lovísu orðið, þvert á vilja bóndans, en örvæntið ekki, Gunnar fær að ljúka frásögn sinni síðar í viðtalinu.

„Það breyttist allt mikið út af Covid,“ segir Lovísa. Þau voru ákveðin í að flytja til New York ef Gunnar kæmist inn í Columbia. Þegar hann síðan komst inn í námið samglöddust allir, þar til Covid var komið á fullt og fjölmiðlar fóru hamförum í fréttafluttningi af ástandinu í borginni. 

„Þá kvað við annan tón hjá fólkinu okkar sem sagði: „þið eruð ekki að fara að flytja til New York!“ segir Lovísa og bætir við að auðvitað hafi það sett öll þeirra plön í uppnám.

„Það fór allt í kaldakol“

Lovísa starfaði áður sem flugfreyja og mamma hennar líka, hún hafði því séð í hillingum að mamma hennar gæti heimsótt þau reglulega og létt undir með þeim.

Þegar fjölskyldan flaug út á vit ævintýranna var Marel, miðjustrákurinn, aðeins fimm vikna gamall. „Hann átti að fæðast á haustönninni úti, en af því að við frestuðum flutningum þá var hann fimm vikna þegar við flugum út,“ segir Lovísa. Þau flugu því út með einn fimm vikna og annan nýorðinn tveggja ára. Eftir millilendingu í Boston komust þau í íbúðina og þurftu þar að fara í sóttkví. 

„Svo náttúrulega bara...,“ segir hún og hlær, „fór allt í kaldakol. Við töldum okkur vera með allt á á hreinu; vorum búin að panta rúm, allt í eldhúsið, borð og stóla. Allt innbúið átti að koma með Ikea-pöntun sama dag og við lentum.“

Sváfu á vindsæng í tæpar tvær vikur 

„Íbúðin hafði staðið auð í hálft ár þannig að hún var alveg skítköld enda janúar í New York. Þá er oft jafnvel kaldara en heima,“ segir Lovísa áður en hún lýsir næsta áfalli fyrir blaðamanni.

Ikea-sendingin hafði ekki borist í íbúðina þar sem Gunnar og Lovísa voru ekki komin með bandarískt símanúmer. Komið var að háttatíma hjá Flóka, elsta stráknum, og „EKKERT“ í íbúðinni. Á þeim tímapunkti voru góð ráð dýr, enda ljóst að einhvern tíma tæki fyrir hjónin að fá bandarískt símanúmer.

Að lokum náðu þau að útvega vindsæng sem þau sváfu á í næstum tvær vikur. „Við sváfum þrjú á vindsæng og Marel greyið bara í vagninum þangað til sendingin var komin,“ segir Lovísa, sem kveðst nýfarin að geta talað um þessa upplifun.

„Þurfti að koma honum inn einhverstaðar“

Lovísa var heima með strákana fyrsta hálfa árið. Um sumarið komust þau síðan að því að í kjölfar Covid hafði brottfall barna úr skóla verið svo mikið að borgin tók upp á því að bjóða börnum fría skólagöngu niður í þriggja ára aldur í stað fimm ára.

„Ástandið þarna var þannig að ég þurfti að koma honum inn einhvers staðar,“ segir Lovísa hlæjandi. Fram að þessu hafði hún verið ein með strákana allan daginn, eða þar til Gunnar kom heim úr skólanum. Þá borðuðu þau saman kvöldmat og komu strákunum í rúmið áður en Gunnar hélt áfram að læra.

Þau segjast hafa verið ánægð með skólann hans Flóka, þrátt fyrir skrítna tíma. „Sökum samkomutakmarkana höfðum við ekki kost á að taka þátt í hefðbundinni aðlögun. Við fengum ekkert að sjá og erum í rauninni að fara að sjá skólastofuna fyrst núna, af því að Marel er að fara í skólastofuna sem að Flóki var í þarna fyrsta árið,“ segir Lovísa. 

Nýtt samfélag, nýtt tungumál og grímuskylda 

Það var því vonum erfitt fyrir ungan dreng að aðlagast skólanum. „Ég hugsa að það hafi líka haft með það að gera að það hjálpaði ekki að vera kominn inn í nýtt samfélag, nýtt tungumál og þurfa að vera með grímu allan daginn,“ segir Gunnar en Flóki var með grímu í skólanum allt fyrsta árið sitt.

Þá var Flóki ekki alveg á því að tala ensku í skólanum fyrr en hann væri alveg kominn með tungumálið á hreint. „Okkur fannst hann alveg vera búinn að ná tökum á tungumálinu,“ segir Lovísa, það var síðan í febrúar, þegar Flóki hafði verið í skólanum í hálft ár, að kennarinn sagði þeim hann væri „loksins farinn að tala,“ segir Lovísa létt í bragði, enda hafði hún haldið í þrjá mánuði að hann væri talandi í skólanum.

Flóki útskrifaðist úr skólanum sem hann byrjaði í haustið eftir …
Flóki útskrifaðist úr skólanum sem hann byrjaði í haustið eftir að þau fluttu út, við hátíðlega athöfn í lok júní Ljósmynd/Lovísa Falsdóttir

Íslensku-löggan

„Svo gerist það að mér er boðin staða doktorsnema í rafhlöðuverkfræði, eiginlega fyrir röð tilviljana, eins og margt í lífinu. Blessunarlega féllst Lovísa á að við myndum framlengja veru okkar hér,“ segir Gunnar sem fær loks að ljúka frásögn sinni síðan í upphafi viðtalsins, þegar Lovísa krafðist þess að fá að krydda frásögnina.

Á þeim tímapunkti byrjuðu þau að skoða dagvistun fyrir Marel, sem byrjaði hjá dagmömmu í apríl árið 2022. „Það var allt öðruvísi að fylgjast með honum ná tökum á enskunni,“ segir Lovísa enda byrjaði hann að læra tungumálin tvö samhliða. 

Gunnar og Lovísa leggja áherslu á því að börnin tali íslensku heima fyrir. Þau segjast heppin að vera bæði íslenskumælandi og því sé einungis talað eitt tungumál á heimilinu. Þau virðast þó ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur, því þegar Marel grípur í enskuna leiðréttir bróðir hans hann og segir, „Þú átt að segja þetta.“ Flóki hefur þannig fengið titil íslensku-löggunnar á heimilinu.

Reglan á heimilinu er þar af leiðandi einföld, „við tölum ekki ensku nema það sé ókurteist að tala íslensku í kringum enskumælandi vini okkar,“ segir Lovísa.

Fylgdust með borginni vakna 

Gunnar segir ekki hægt að láta sér leiðast í New York. Stórborgin hentar fjölskyldunni vel, enda finnst þeim geggjað að vera úti við, geta skellt börnunum í vagninn og rokið út í lífið í stórborginni.

Lovísa segir það hafa bjargað fjölskyldunni að enda í stórborginni í Covid því þó landið hafi meira og minna verið lokað allt fyrsta árið þeirra var nóg við að vera fyrir unga drengi.

„Ég er ekki að ýkja, ég er búin að fara á hundrað róló-velli með drengina,“ segir Lovísa og bætir við að þeim hafi rétt svo verið byrjað að leiðast þegar landið opnaði aftur. „Þá gat fólk farið að koma í heimsókn og maður fór aftur sama hringinn,“ segir Lovísa og hlær.

„Það var líka geggjað að vera hérna og fylgjast með borginni vakna eftir Covid. Að hafa upplifað Times Square með nokkrum hræðum yfir í að treysta sér varla þangað núna með kerru,“ segir Lovísa.

„Ég er ekki að ýkja, ég er búin að fara …
„Ég er ekki að ýkja, ég er búin að fara á hundrað róló-velli með drengina,“ segir Lovísa Ljósmynd/Lovísa Falsdóttir

Samviskubit gagnvart fjölskyldunni á Íslandi

Þó fjölskyldan í New York telji einungis fimm manns þá er baklandið á Íslandi gríðarstórt. Gunnar og Lovísa eiga bæði stórar og samheldnar fjölskyldur auk þess að vera vinamörg. Vegalengdin milli Íslands og Bandaríkjanna getur því reynst erfið enda margt sem togar í þau á Íslandi.

Lovísa segist þó ekki fá heimþrá en kveðst stundum fá samviskubit yfir því að vera með einu barnabörn foreldra þeirra beggja í annarri heimsálfu.

„Ég fæ aðallega samviskubit yfir því að þau missi af þessu daglega. En síðan fáum við góðan tíma saman þegar fólkið okkar kemur út. Þá gista allir hjá okkur og stemmingin verður öðruvísi en að fara í sund á sunnudögum,“ segir Lovísa kímin.

Setja ekki fyrir sig fjarlægðina 

Kannski er heppilegt að þau eigi ekki fleiri barnabörn. Þá koma þau frekar út til ykkar, segir blaðamaður og við hlægjum öll. Gunnar og Lovísa taka vel í þessa kenningu blaðamanns og segja:

„Við erum náttúrulega gríðarlega heppin, við höfum einungis prófað að vera ein sem fjölskylda í viku frá því að Svala fæddist.“

Svala er nýjasta viðbót fjölskyldunnar, en hún fæddis í New …
Svala er nýjasta viðbót fjölskyldunnar, en hún fæddis í New York í byrjun júlí. Ljósmynd/Lovísa Falsdóttir

Rúmur mánuður er liðinn frá því að Svala, yngsta barn þeirra hjóna kom í heiminn. Móðir Lovísu var hjá þeim þegar Svala fæddist og gat því aðstoðað með drengina tvo, auk þess sem faðir hennar kom út stuttu seinna. 

Þegar foreldrar Lovísu héldu heim á leið þá var móðir Gunnars í flugi á leið út til þeirra, ásamt systur hans. Þegar þeirra dvöl í stórborginni var lokið, var fjölskyldan ein úti í rúma viku, eða þar til yngsta systir Lovísu flaug út til þeirra. 

Það er því nokkuð ljóst baklandið setur fjarlægðina ekki fyrir sig þegar fjölskyldunni í New York vantar auka hendur. 

Þakklát fyrir gæðastundirnar

Gunnar og Lovísa segjast mjög meðvituð um að tíminn sem þau fá með börnunum kemur ekki aftur. Þau eru því þakklát fyrir gæðastundirnar sem þau fá saman í New York.

„Heima væri það að henda þeim í stressi aftur í einhvern bíl, allir dúðaðir í útifötunum að keyra í leikskólann. Hérna löbbum við saman með strákana í skólann og yfirleitt er gott veður.

Síðan sæki ég þá um þrjú leytið, við kíkjum á nokkra róló-velli og vinnum okkur í átt að skólanum hans Gunnars. Þaðan löbbum við síðan saman heim og eigum þannig allar frístundirnar okkar saman,“ segir Lovísa.

„Ekki þessi skutla og sækja pakki. Tengingin verður öðruvísi svona á göngu - bæði milli okkar og barnanna og þeirra og umhverfisins,“ bætir hún við. 

Þá bætir Gunnar því við að dvölin í New York hafi verið sérstaklega góð fyrir hann. „Það er í rauninni bara minna að gera. Auðvitað er ég í krefjandi námi en ég er meira heima og því meira með fjölskyldunni. Fókusinn er á það. Takturinn er hægari - eins ankannalegt og það kann að hljóma í sjálfri New York - og við erum samheldnari fyrir vikið.“

Framtíðin óskrifað blað

Það er þó ekki þar með sagt að þau ætli aldrei að flytja heim. „Við viljum ala börnin okkar að einhverju leyti upp á Íslandi.“

Ég er alinn upp í Vestmannaeyjum og Grindavík og ef þú ferð ekki út í vondu veðri þá ferðu ekki út yfir höfuð. Peyjarnir mínir eru orðnir dálítið góðu vanir. Ef það byrjar aðeins að dropa þá heyrist: „Pabbi getum við farið inn?“ segir Gunnar og hlær.

Gunnar segir ákveðin gildi eingöngu fást frá samfélaginu, ekki fjölskyldunni. Það sé eitt að alast upp á íslensku heimili og annað að alast upp í íslensku samfélagi. Lovísa tekur undir orð Gunnars og blaðamaður heyrir að þau hjónin eru samrýnd.

Það er þó ekkert fast í hendi með framhaldið enda veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Gunnar útskrifast þó með doktorsgráðu næsta vor og þá hyggjast þau skoða hvað hentar best upp á framtíðina fyrir fjölskylduna sem heild.

Bræðurnir eru vonum ánægðir með systur sína og eiga eflaust …
Bræðurnir eru vonum ánægðir með systur sína og eiga eflaust eftir að sýna henni marga róló velli í framtíðinni. Ljósmynd/Lovísa Falsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert