„Mér fannst þetta merkilegt, þarna segir starfsmaður sorphirðunnar mér að þetta sé ekkert að virka og hvatti okkur því til þess að sækja um bláa og græna tunnu,“ segir viðmælandi mbl.is sem búsettur er í Árbæ.
Innleiðing á nýju sorphirðukerfi hjá Reykjavíkurborg hefur farið brösuglega af stað í sumar. Nýjum tunnum hefur verið komið fyrir við mörg heimili borgarinnar,
Nýrri tvískiptri tunnu var komið fyrir hjá viðmælanda mbl.is í lok júní. Það var þó ekki fyrr en í morgun sem tunnan var losuð í fyrsta skipti.
Sagðist viðmælandinn hafa verið að koma heim þegar starfsmaður Sorphirðu Reykjavíkur gekk inn stéttina með tunnuna og sagði að þetta hafi loksins hafst. Starfsmaðurinn hafi síðan ráðlagt viðkomandi að panta bláa og græna tunnu þar sem núverandi fyrirkomulag var ekki að virka.
Þau voru sammála um að þar sem plast úrgangur frá heimilum væri jafnan meiri en pappírsúrgangur þá ætti stærra hólf tunnunnar heldur að vera undir plastið.
Að lokum sagði starfsmaðurinn að ef borgarbúar vildu knýja á um breytingar og mótmæla flokkunarkerfinu, þá þyrfti það að óska eftir blárri eða grænni tunnu.
„Mér finnst dálítið merkilegt að svo virðist sem sorphirðumenn hafi ekki verið hafðir með í ráðum þegar kerfið var hannað,“ segir viðmælandinn sem hefði viljað að sorphirðubílarnir hefði verið prófaðir með mismiklu magni í tunnunum áður en farið var af stað í innleiðinguna.
Viðmælandinn segir þó hugmyndina um að flokka góða, en framkvæmdina ekki alveg hafa gengið upp.
„Við höfum flokkað síðan við fluttum hingað árið 2015,“ segir viðmælandinn og kveður það hafa gengið vel. Þá segir hann að í Árbæ hafi verið tilraunaverkefni með lífræna ruslið sem einnig hafi gengið vel.
Fyrirkomulagið var þá þannig að íbúar voru með tvær litlar tunnur fyrir lífrænan úrgang og almennt sorp, auk tunnu fyrir plast, en íbúar fóru sjálfir með pappa í grenndargáma.
Viðmælandinn hefur þurft að fara með plast og pappír í grenndargáma síðastliðin mánuð, enda nýja tunnan hafði ekki verið tæmd síðan í lok júní. Hann segir þó gengið mjög illa um grenndargáma í Árbæ og ástandið því ekki gott.
Ljósmyndari mbl.is fór á staðinn og svo virðist sem búið sé að hreinsa upp í kringum gámana, enda allt orðið hreint og fínt.
Fréttin hefur verið uppfærð.