Óska eftir tafarlausu samtali við ráðherra

Samtökin krefjast svara frá ráðherra og óska eftir samtali tafarlaust.
Samtökin krefjast svara frá ráðherra og óska eftir samtali tafarlaust. mbl.is/Arnþór

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgasvæðinu (SSH) harma stöðu þeirra hælisleitenda sem njóta ekki lengur grunnþjónustu samkvæmt breyttum útlendingalögum, en mótmæla á sama tíma afstöðu ríkisins, enda hafi ekkert samtal farið fram um hvað taki við hjá þessum hópi fólks.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá SSH. Samtökin segjast hafa varað við því að þessi staða gæti komið upp og hafa óskað eftir tafarlausu samtali við félags- og vinnumálaráðherra.

Ríkið verði að gera ráðstafanir

„Eins og komið hefur fram í fréttum að undanförnu er nú fjöldi hælisleitenda á höfuðborgarsvæðinu sem ekki nýtur lengur grunnþjónustu samkvæmt breyttum útlendingalögum þar sem 30 dagar eru liðnir frá endanlegri synjun um alþjóðlega vernd. Af viðbrögðum einstakra fulltrúa ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum má ráða að ábyrgðin sé nú á höndum sveitarfélaganna,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Fólkið hafi misst framfæri sitt hjá ríkinu og sé án kennitölu og réttinda í landinu. Sveitarfélögin séu því sett í afar erfiða stöðu gagnvart þessum hópi.

„Að mati Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er þessi málaflokkur á ábyrgð ríkisins og nauðsynlegt að þau ráðuneyti sem málaflokkurinn fellur undir geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja umræddum einstaklingum þak yfir höfuðið og framfærslu á meðan þeir eru hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert