„Þá eru málin bara komin í hring“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir nálgun ráðherra ekki ganga …
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir nálgun ráðherra ekki ganga upp. Ljósmynd/Hafnafjarðarbær

„Það hafa engin viðbrögð komið til okkar og ekki til annarra bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu, eftir því sem ég best veit. Ég á von á því að við bregðumst við þessu máli sem hópur, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, og óskum eftir fundi með ráðherra,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur sagt að þeir einstaklingar sem hafi verið sviptir þjónustu vegna nýrra útlendingalaga, geti sótt um félagsaðstoð sveitarfélaga og að sveitarfélögin geti ákveðið að veita fólkinu aðstoð og þannig komið í veg fyrir að það lendi á götunni.

Rósu þykir þetta einkennileg nálgun á málið hjá ráðherra. Um sé að ræða réttindalausa einstaklinga sem hafi fengið niðurstöðu sinna mála hjá ríkinu. Hún spyr hvort sveitarfélögin eigi að taka málin upp aftur og setja í ferli.

Hefði þurft að undirbúa afleiðingarnar betur 

53 einstaklingar hafa fengið tilkynningu um þjónustumissi eftir að hafa endanlega verið synjað um alþjóðlega vernd hér á landi. Þjónustan hefur nú þegar verið felld niður hjá stórum hluta hópsins. Þessir einstaklingar eiga ekki í nein hús að venda og eru því á götunni.

Rósa segir þetta ekki gott verklag og að augljóslega hefði þurft að undirbúa afleiðingar nýju útlendingalaganna betur og skerpa á verkferlum.

„Ég er ekki að tjá mig um lögin sem slík heldur bara hvaða afleiðingar þau hafa fyrir ákveðinn hóp og hvað tekur þá við. Það þýðir ekki að benda á einhvern annan, í þessu tilfelli sveitarfélögin. Þetta eru algjörlega réttindalausir einstaklingar.“

Eitthvað sem gengur ekki upp

Hún segir einkennilegt að vísa til þess að sveitarfélögin geti tekið afstöðu til mála sem komi upp, þar sem um sé að ræða einstaklinga sem hafi verið mál sín í vinnslu hjá ríkinu jafnvel árum saman.“

„Eiga þá sveitarfélögin að fara að setja þau mál aftur í gang? Ég bara skil ekki þessar útskýringar. Eigum við að setja málin aftur í feril sem komin er niðurstaða í? Þá eru málin bara komin í hring,“ segir Rósa sem gerir ráð fyrir að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fundi sameiginlega vegna málsins á næstu dögum.

„Ég er ósátt við að það eigi að setja okkur í þá aðstöðu að dæma eða meta hvert mál fyrir sig, sem er komið með lyktir eftir langan feril hjá ríkinu. Þetta er eitthvað sem gengur ekki upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert