Þörf á miðlægum og sérhæfðum búnaði

Slökkvistarf í júlí við eldgosið við Litla-Hrút.
Slökkvistarf í júlí við eldgosið við Litla-Hrút. mbl.is/Hákon

„Það segir sig náttúrlega sjálft að í svona stórum atburðum þá reynir svolítið á tækin. Það er margt sem gengur á og eitthvað sem skemmdist. Slöngur eyðilögðust og brunnu. Það þarf að kaupa svolítið af búnaði.“

Þetta segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, í samtali við Morgunblaðið spurður hvort þörf sé á nýjum tækjabúnaði hjá slökkviliðinu eftir baráttuna við gróðureldana á gosstöðvunum við Litla-Hrút í júlí.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík. mbl.is/Eyþór

Hann tekur fram að ýmsar slöngur, stútar og dælur hafi skemmst í átökunum en slökkviliðsbílarnir hafi komið að mestu óskaddaðir undan verkefninu þrátt fyrir að hafa fest reglulega á gosstöðvunum í erfiðu landslaginu.

Bregðast við fyrir næstu baráttu

Hann biðlar til ríkisins að fjárfesta í tækjakosti fyrir slökkviliðin og bendir á að mikilvægt sé að bregðast við áður en gýs aftur á Reykjanesskaganum. Eldvirknin virðist vera að færa sig meira í austurátt þar sem sé meiri gróður en í eldgosunum við Fagradalsfjall og í Meradölum. Einar bendir jafnframt á að því meira sem eldvirknin færir sig fjær fyrstu tveimur gosstöðvunum verði landslagið erfiðara og sömuleiðis aðkoman fyrir bílana.

„Þetta er ekki bara mál sveitarfélaganna heldur þyrfti ríkið að koma að þessu líka, þetta er almannavarnamál. Ég hef fulla trú á því að við séum sama sinnis um að byggja þetta upp og læra af því sem við höfum lært síðustu vikur. Það hafa verið tíu til ellefu mánuðir á milli gosa á Reykjanesskaganum. Ef eldvirknin heldur áfram í þessa átt er það landslag enn torfærara og töluvert meiri gróður.“

Einar ítrekar að mikilvægt sé að kaupa sérútbúin tæki sem gætu nýst á landsvísu í baráttu gegn gróðureldum hvar sem þeir koma upp. „Þetta nýtist í öðrum gróðureldum sem verða á landsvísu. Það þarf að vera til miðlægur og sérhæfður búnaður sem slökkviliðin geta gengið í, þau hafa óskað eftir þessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert