Vill fimm menn í atvinnurekstrarbann

Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu. mbl.is/Hjörtur

Fimm karlmenn á fertugs- til sextugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir meiri háttar brot á skattalögum og lögum um bókhald með því að hafa staðið skil á röngum skattframtölum þriggja einkahlutafélaga í verktakageiranum upp á 130 milljónir og þannig komist hjá því að greiða ríflega 31 milljón í virðisaukaskatt á árunum 2016-2019.

Héraðssaksóknari fer auk refsingar fram á að öllum sakborningum verði bannað að stofna og stýra félögum með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna í allt að þrjú ár.

Tveir mannanna voru svo í forsvari fyrir tvö önnur félög og eru þeir sakaðir um hlutdeild í brotum hinna með því að hafa gefið út megnið af röngum eða tilhæfulausum reikningum sem notaðir voru við skattauppgjör fyrri félaganna þriggja. Hafa tvímenningarnir reyndar áður verið ákærðir fyrir rekstur annars félagsins, en þeir eru þar sakaðir um að hafa komist hjá því að greiða 32,4 milljónir í virðisaukaskatt. Sá eldri þeirra var skráður stjórn­ar­maður og fram­kvæmda­stjóri, en sá yngri, Arm­ando Luis Rodrigu­ez, var varamaður í stjórn og auk þess dag­leg­ur stjórn­andi. Sá eldri var aðeins tengdur því félagi, en Armando stjórnandi í báðum.

Þetta eru þó ekki fyrstu tvær ákærurnar sem Rodrigu­ez fær á sig fyr­ir skatta­brot, en árið 2020 var hann dæmd­ur í 14 mánaða fang­elsi og til að greiða 96 millj­ón­ir í sekt vegna meiri hátt­ar skatta- og bók­halds­laga­brota, sem og pen­ingaþvætt­is. Þá var hann árið áður dæmd­ur í þriggja mánaða fang­elsi fyr­ir hlut sinn í skatta­laga­brot­um í tengsl­um við rekst­ur fyr­ir­tæk­is­ins SS verks ehf. árið 2016. Þetta er því fjórða málið gegn honum á um fjórum árum. Sá eldri á að baki fjóra dóma, en þeir eru vegna þjófnaðar og fíkniefnabrota.

Í málinu sem nú er ákært í er 51 árs karlmaður ákærður fyrir að hafa offramtalið rekstrargjöld eigin fyrirtækis um tæplega 76 milljónir á árunum 2016-2018. Með því hafi hann komist hjá því að greiða 18,2 milljónir í virðisaukaskatt.

Sá næsti, sem er 53 ára, er ákærður fyrir sambærileg brot, en í hans tilfelli er um að ræða offramtalin rekstragjöld upp á 25 milljónir á árunum 2018-2019. Með því hafi hann komist hjá því að greiða 7,9 milljónir í skatta.

Þriðji maðurinn, sem einnig er 51 árs, er ákærður fyrir að hafa offramtalið rekstrargjöld upp á 17 milljónir og þannig komist hjá því að greiða 5 milljónir í virðisaukaskatt.

Varðandi atvinnurekstrarbannið sem saksóknari fer fram á, þá var heimild um slíkt bætt inn í almenn hegningarlög árið 2019. Að því er mbl.is kemst næst hefur saksóknari tvívegis áður farið fram á að dómstólar nýti þá heimild í skattalagamálum. Í fyrra tilfellinu hafnaði dómari þeirri kröfu, en í seinna málinu varð hann við kröfunni. Í þeim dómi, sem felldur var í héraði í október í fyrra, var tveggja ára atvinnurekstrarbann samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert