Lögregla hafði afskipti af þremur mönnum fyrir hádegi á laugardag, sem tilkynnt var um niðri miðbæ Reykjavíkur fyrir Gleðigönguna, vegna fatnaðar sem vísaði til nasista og hægri öfgahyggju, segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Lögregla fer af stað, finnur bílinn og það verður tilefni til þess að þeir eru handteknir og vistaðir á meðan málið er skoðað frekar,“ segir Ævar, en tilkynningin barst lögreglu fyrir hádegi á laugardag.
Framkvæmd er leit í bílnum þar sem meðal annars finnast regnbogafánar og mikill fjöldi límmiða með hatursorðræðu. Það er nú til skoðunar lögreglu hvort sú hatursorðræða tengist öðrum málum eða atvikum sem upp hafa komið í aðdraganda Hinsegin daga, segir Ævar.
Þá segir hann það jafnframt til skoðunar hvort mennirnir þrír tengist atvikum þar sem regnbogafánar hafa verið skornir niður í aðdraganda hátíðarinnar.
Mennirnir eru allir lausir úr haldi. Einum þeirra var sleppt á laugardagskvöld en hinum tveimur á sunnudagsmorgun.
Ævar segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi hafið rannsókn á föstudag fyrir rúmri viku síðan, þegar tilkynningar bárust um að hinsegin fánar hefðu verið skornir niður við bensínstöð Orkunnar, við Öskjuhlíð.
Hann segir það nú til skoðunar hvort að mennirnir þrír tengist því máli.
Þá segir Ævar lögreglu hafa tekið niður fána á Miklubraut þar sem búið var að setja stórt svart X á fánana. Hann segir málið til rannsóknar hjá lögreglu, en ómögulegt að segja hvort það tengist mönnunum þremur.
„Við höfum svolítið séð þetta núna í kringum Hinsegin dagana, en það berast alveg tilkynningar jú um haturstjáningu og þess háttar í garð annara minnihlutahópa,“ segir Ævar, en bætir við:
„svo er ég ekki endilega viss um að lögregla fái veður af öllu því sem er að gerast“.
Ævar segir eingarspjöll hafa verið framin víða um bæinn. Þá áréttar hann að þó umræður um eignaspjöll eigi sér stað á samfélagsmiðlum þá verði lögregla ekki endilega var við það.
Því segir hann mikilvægt að fólk tilkynni um ef það verður vart við skemmdarverk eða hatursorðræðu gagnvart minnihlutahópum.