Áhöfn á Akureyri kostar 500 milljónir á ári

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, á Akureyri.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, á Akureyri. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Gera má ráð fyrir að árlegur kostnaður við staðsetningu þyrlu með áhöfn á bakvakt á Akureyri gæti verið um 500 milljónir á ári án uppbyggingar aðstöðu, segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is

Staðsetning á þyrlum Landhelgisgæslunnar hefur verið til umræðu á undanförnum árum. Í þeirri umræðu hefur meðal annars verið horft til Akureyrar, Vestmannaeyja, Egilsstaða, Selfoss og fleiri staða, segir Ásgeir. 

„Eins og staðan er núna eru þyrlurnar gerðar út frá Reykjavík allt árið um kring. Áhafnirnar standa á bakvöktum sem þýðir að í langflestum tilfellum eru áhafnarmeðlimir heima hjá sér þegar þyrlurnar eru kallaðir út,“ segir Ásgeir. „Þeir þurfa því að koma sér niður á flugvöll og þá fer hún í loftið,“ bætir hann við. 

„Verkefnið gekk mjög vel“

Í samvinnu við lögregluumdæmin í Vestmannaeyjum og á Akureyri var ákveðið að gera þyrlurnar út frá þessum tveimur stöðum undanfarnar tvær helgar. Um verslunarmannahelgina var þyrlan gerð út frá Vestmannaeyjum og nú síðast frá Akureyri, enda fjölmennt á Norðurlandi um helgina, meðal annars vegna Fiskidagsins mikla á Dalvík. 

Ásgeir segir verkefnið hafa gengið mjög vel. Sérstaklega þegar horft er til þess að um síðustu helgi urðu þrjú slys, þar sem skipti sköpum að hafa þyrlurnar fyrir norðan. 

Áætlaður kostnaður um 500 milljónir á ári

Eftir sem áður miðast fyrirkomulagið, eins og það er sett upp núna, við það að þyrlusveitin er staðsett í Reykjavík. Til þess að gera breytingar á því þarf að eiga sér stað samtal milli stjórnvalda, Landhelgisgæslunnar, lögreglu og fleiri viðbragðsaðila, segir Ásgeir. 

Þá lagði Landhelgisgæslan kynningu fyrir starfshóp um sjúkraflug þar sem fram kom að fjölga þyrfti um eina þyrluáhöfn til þess að geta staðsett þyrlu úti á landi í meira mæli. Áætlaður kostnaður við slíka ráðstöfun er um 400 milljónir króna. Þá þyrfti jafnframt að byggja upp aðstöðu sem nemur um 250-300 milljónum króna, segir Ásgeir.

Við það myndi bætast aukinn rekstrarkostnaður, en gera má ráð fyrir að árlegur kostnaður við staðsetningu þyrlu, með áhöfn á bakvakt á Akureyri, gæti verið um 500 milljónir á ári án uppbyggingar aðstöðu. 

Með þessu mætti þó ná til allra landshluta með þyrlu á innan við 90 mínútna á þokkalegum degi, auk þess sem björgunarviðbragð á norður- og austurmiðum myndi styrkjast verulega. 

Núverandi fyrirkomulagi best borgið frá Reykjavík 

Auðvitað hefur Landhelgisgæslan metnað fyrir því að veita sem besta þjónustu með því að gera þyrlurnar út frá fleiri en einum stað á landinu, en á sama tíma þá er þetta kostnaðarsöm útgerð. Það er kostnaðarsamt að gera út þyrlur og flugvélar. Miðað við núverandi fyrirkomulag, þá hefur því verið best borgið frá Reykjavík, þá hvernig þá þeim fjármunum er ráðstafað,“ segir Ásgeir. 

Til útskýringar segir Ásgeir það vera vegna þess að öll aðstaða er til staðar í Reykjavík. „Varahlutalager, flugvirkjar og öll útgerðin er gerð út frá Reykjavík eins og staðan er núna. Ef það ætti að bæta við öðrum útstöðvum þá auðvitað kostar það umtalsverða fjármuni, segir Ásgeir. 

Enda þarf þá að vera með bæði áhafnir flugvirkja, varahlutalager og aðstöðu til þess að geta annast viðhald á þessum stöðum, sem útheimtir töluverða fjármuni. Eftir sem áður þótti Landhelgisgæslunni mikilvægt að kanna hvernig þetta fyrirkomulag, eins og var undanfarnar tvær helgar, myndi koma til með að ganga. 

Miðað við hversu vel þessi verkefni gengu, segir Ásgeir það klárlega koma til greina að gera þyrluna út frá öðrum landshlutum næsta sumar, yfir þær helgar sem vitað er að mikið álag er í kringum. 

Lang flest útköll frá Suðurlandi 

Yfir sumartímann berast Landhelgisgæslunni langflest útköll frá Suðurlandi, segir Ásgeir. Hann segir þó að auðvitað verði að horfa til þess að til dæmis á Austurlandi eru sum útköll afgreidd öðruvísi en með þyrlu, einfaldlega vegna þess að miðað við staðsetningu er flugtíminn frá Reykjavík of langur. Ef þyrlan hins vegar væri staðsett nær þá væri mögulega kallað til þyrlu. 

„Allt snýst þetta að langmestu leyti um fjármagn,“ segir Ásgeir að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert