Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar, segir að við blasi að 43 ára saga stofunarinnar fari í vaskinn eftir að starfseminni var tilkynnt um að engin rekstarframlög yrðu til hennar á næsta ári.
Rætt hafi verið um að setja á laggirnar þjóðaróperu sem styrkt er af ríkinu og segir Steinunn það hafa verið skilning Íslensku óperunnar, sem er sjálfseignastofnun, að nýja óperan yrði byggð á grunni hennar.
Eins og sakir standa sé hins vegar ekkert í hendi um nýja þjóðaróperu og hefur öllum starfsmönnum Íslensku óperunnar verið sagt upp störfum.
„Frá því umræðan um þessa mögulegu þjóðaróperu fór í gang þá höfum við alltaf skilið það þannig að slíkt yrði byggt á grunni Íslensku óperunnar,“ segir Steinunn.
Að sögn Steinunnar hafa verið settir á þrír starfshópar um nýja þjóðaróperu en alls óljóst sé með afdrif hannar. Enn hafi ekki verið ráðinn verkefnastjóri sem eigi að vinna að óperunni. Það eina sem sé ljóst á þessari stundu sé að Íslenska óperan muni ekki fá rekstarframlag frá ríkinu.
Hún segir að Íslenska óperan búi yfir menningararfleið sem sé verið að henda fyrir róða að óbreyttu.
„Það er allt til staðar hjá Íslensku óperunni. Leikmyndirnar, sýningarrétturinn, búningarnir, nótnasafnið, tengslanetið og orðsporið. Þú dregur ekki nýja óperustofnun upp úr hatti," segir Steinunn.
Hún segir að ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að ræða við ríkisstjórnina um málið. Það hafi hins vegar borið lítinn árangur.
„Það er svolítið eins og hljóð og mynd fari ekki saman. Hvað sagt er og hvað það er sem gert er. Það er mjög afgerandi að leggja niður svona menningarstofnun í stað þess að byggja framtíðina á svona góðum grunni. Það er það sem við höfum verið að tala fyrir. Í hugum Íslendinga er Íslenska óperan okkar þjóðarópera,“ segir Steinunn.
Hún segir að samkvæmt síðustu fregnum frá ríkisstjórninni hafi þeim verið tilkynnt um að til stæði að ráða verkefnastjóra um nýja þjóðaróperu. Það hafi hins vegar enn ekki verið gert. „Á meðan leggst þessi merkilega stofnun af og alls óvist með framhaldið,“ segir Steinunn.
Á bilinu 5-7 starfsmenn hafa verið fastráðnir við óperuna. Auk þess hafa á annað hundrað manns verið ráðnir tímabundið til starfa tengslum við stórar uppfærslur.
Framlag til óperunnar á síðasta ári var 196 milljónir króna að sögn Steinunnar.