Fann minnsta hraun í heimi

Daníel Páll Jónasson hefur farið alls 40 ferðir að gosstöðvunum …
Daníel Páll Jónasson hefur farið alls 40 ferðir að gosstöðvunum á Reykjanesskaga síðan árið 2021. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson

Daníel Páll Jónasson landfræðingur fann minnsta hraun í heimi við gosstöðvarnar við Litla-Hrút þegar hann gekk umhverfis þær á sunnudag. Daníel, sem vinnur nú að útgáfu bókar um síðustu þrjú eldgos á Reykjanesskaga, var í sinni fertugustu ferð að gosstöðvunum þegar hann kom auga á hraunið litla. 

Hraunið er norðan við gígana sem gaus úr við Litla-Hrút nú í sumar. 

„Ég ákvað að labba hringinn í kringum hraunið og þá tók ég eftir þessari litlu klessu. Ég sá að það voru tvö lítil hraun sem voru ekki tengd við stóra hraunið og svo þessi litla klessa,“ segir Daníel í samtali við mbl.is. 

Hann birti mynd af klessunni í Iceland Geology-hópnum á Facebook og stakk upp á því að þetta væri minnsta hraunbreiða í heimi. Fékk hann góðar undirtektir og var húmorinn ekki langt undan hjá öðrum notendum sem spurðu í góðu gamni hvort best væri að fylgja leið A eða B að hrauninu. 

Litla hraunið sem Daníel tók eftir í fertugustu ferðinni.
Litla hraunið sem Daníel tók eftir í fertugustu ferðinni. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson

Vinnur að bók um eldgosin

Daníel hefur myndað eldgosin þrjú sem orðið hafa á Reykjanesskaga síðustu þrjú ár í bak og fyrir. Sem fyrr segir var þetta hans fertugasta ferð að gossvæðinu. Tilgangur ferðarinnar var að mynda öll þrjú hraunin sem runnið hafa á svæðinu og gekk hann alls 26 kílómetra í kringum hraunbreiðuna. 

Myndirnar verða í síðasta kafla bókar sem hann vinnur nú að þar sem hann mun fjalla um eldgosin en ætlunin er að bókin verði í senn leiðsögu- og ljósmyndabók um svæðið. 

„Ég vildi halda mig sem næst hrauninu til að taka myndir og þá þarf maður að klöngrast upp brattar brekkur og yfir skorninga. Þetta er alveg vel þess virði, það er gaman að skoða þetta. Það er skemmtilegast þegar gos er í gangi, en líka þegar það er ekki,“ segir Daníel. 

Þessi ferð var sú fyrsta sem hann fór þegar eldgos er ekki í gangi. 

Daníel hefur gefið út ljósmyndabók um fyrsta eldgosið sem varð …
Daníel hefur gefið út ljósmyndabók um fyrsta eldgosið sem varð árið 2021. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson

Háður því að ganga að gosstöðvunum

„Fyrstu ferðirnar voru einna skemmtilegastar og svo fór gosið að breytast. Þá fóru að koma kvikustrókar. Þá fór maður að upplifa allskonar hluti, það rigndi yfir mig gjalli og svo sá ég kvikustróka. Síðan fóru að renna hraunsepar og ég náði góðum myndum af því,“ segir Daníel. 

Daníel hefur upplifað ýmislegt í göngum sínum að gosstöðvunum, þar …
Daníel hefur upplifað ýmislegt í göngum sínum að gosstöðvunum, þar á meðal skýstróka sem fara um hraunið. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson

Hann segir gosgöngurnar ólíkar og inn á milli komi mjög skemmtilegar ferðir. „Maður verður alveg gjörsamlega háður þessu. Ég væri ekki búinn að fara í fjörutíu ferðir ef þetta væri leiðinlegt,“ segir Daníel. 

Daníel segist aldrei hafa lent í miklum háska í ferðum sínum að gosinu. „Ég hef aldrei lent í hættu beinlínis. Ég hef einu sinni farið að hraunánni sem rann niður í Nátthaga. Það var seint í fyrsta gosinu. Ég fór alveg upp að hraunánni og náði mjög góðu myndskeiði af henni. Þá var ég orðinn frekar smeykur, ég var ekki lengi hjá henni,“ segir Daníel.

Það eru fleiri en Daníel sem hætta sér nálægt hrauninu …
Það eru fleiri en Daníel sem hætta sér nálægt hrauninu til að taka myndir. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson

Leitar að útgefanda

Daníel gaf út ljósmyndabók með myndum af fyrsta eldgosinu og vinnur nú að bók um öll eldgosin. Þar fléttar hann inn í frásögnina upplifun sína af því að ganga að eldgosunum þremur. Hann áætlar að bókin komi út í lok september eða í byrjun október. 

„Ég gaf fyrstu bókina út sjálfur en er núna að leita að útgefanda fyrir þessa bók því þetta er alveg mikil vinna. En ef ég finn ekki útgefanda þá gef ég hana bara út sjálfur,“ segir Daníel.

Eldgosin hafa mikið aðdráttarafl.
Eldgosin hafa mikið aðdráttarafl. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson

Eins og jól, áramót og páskar 

Daníel er með gráðu í landfræði og skrifaði BS-ritgerð sína um eldgos sem gætu mögulegar skilað hrauni í átt að höfuðborgarsvæðinu. 

„Þegar það byrjaði að gjósa þarna fyrir tveimur árum þá voru það eins og jól, áramót og páskar fyrir mér. Mér fannst það mjög skemmtilegt. Ég bjóst ekkert við því að fá að upplifa gos á Reykjanesskaga. Ég skrifaði þessa ritgerð árið 2012 og það gaus þarna síðast fyrir 800 árum. Þannig ég bjóst ekkert við því að fá að upplifa eldgos þarna,“ segir Daníel. 

Hver ganga er einstök og inn á milli koma gríðarlega …
Hver ganga er einstök og inn á milli koma gríðarlega skemmtilegar göngur að mati Daníels. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson

Hann segist sérstaklega ánægður með að það hafi gosið á öruggum stað og að ekki hafi orðið eldgos nær byggð en raun ber vitni. 

„Það er um að gera að njóta þess á meðan þetta er á svona frekar öruggum svæðum og ógnar ekki neinum innviðum. Þannig þetta er bara skemmtilegt,“ segir Daníel að lokum.

Myndirnar sem Daníel hefur fangað eru margar hverjar tilkomumiklar.
Myndirnar sem Daníel hefur fangað eru margar hverjar tilkomumiklar. Ljósmynd/Daníel Páll Jónasson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert