Féll 20 til 30 metra niður fjallshlíð í gröfu

Kárahnjúkavirkjun.
Kárahnjúkavirkjun. mbl.is/Sigurður Bogi

Gröfumaður slapp með skrekkinn er grafa hans valt og féll um tuttugu til 30 metra niður hlíð Fremri-Kárahnjúks í júlí. Maðurinn hlaut minniháttar áverka og var fluttur á heilsugæsluna á Norðfirði þar sem hann dvaldi yfir nótt en hann er nú kominn aftur til vinnu.

Þetta staðfestir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is.

Vélköngulóin valt út af stalli

Atvikið átti sér stað þann 9. júlí þegar maðurinn vann við lagfæringar á hrunvörnum og bergstyrkingum við Kárahnjúkavirkjun í svo kallaðri vélkönguló en valt skyndilega út af stalli í fjallshlíðinni og niður að grjóthrunsgirðingu.

Gröfumaðurinn komst sjálfur hjálparlaust úr tækinu en lögregla, sjúkrabíll og björgunarsveit voru kölluð á vettvang þegar að óhappið varð. 

Eftir fyrstu skoðun var ákveðið að ekki væri nauðsynlegt að senda gröfumanninn til Akureyrar eða Reykjavíkur. Þess í stað fór hann með sjúkrabíl til rannsókna á Norðfirði og var útskrifaður þaðan daginn eftir að skoðun lokinni,“ segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Endurmeta verklagið

Grafan sjálf skemmdist töluvert og þurfti að fresta þessum verkþætti í nokkurn tíma enda þurfti að flytja aðra gröfu á staðinn. 

Hins vegar var unnið áfram að öðrum verkþáttum á svæðinu og verkið er núna á áætlun, eftir að ný grafa fékkst, svo áhrifin af óhappinu eru hverfandi.

Verkið er unnið við mjög krefjandi aðstæður. Verktakinn er sérhæfður og þjálfaður til vinnu við aðstæður sem þessar. Sérfræðingar meta hverju sinni hvaða viðbúnaðar er þörf og verklag við þennan verkþátt verður endurmetið.“

Landsvirkjun hefur þegar tilkynnt atvikið til Vinnueftirlitsins og sent stofnunni skýrslu um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka