Strætó hefur sent frá sér tilkynningu um hvernig þjónustu byggðasamlagsins verði háttað á menningarnótt, til að koma til móts við þann gríðarlega fjölda sem leggur leið sína í miðbæ Reykjavíkur þennan dag ár hvert.
Borga þarf almennt fargjald en ferðum verður fjölgað. Þannig mun leið 1 fara á 10 mínútna fresti frá klukkan 10 til 18. Strætó gerir þann fyrirvara að geta aldrei tekið á móti þeim gríðarlega fjölda sem sækir menningarnótt. Áætlar samlagið að geta flutt um 3.200 manns úr öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins á hverri klukkustund.
Skutlur á vegum Strætó verða í boði Reykjavíkurborgar og munu aka milli Laugardalshallar og Hallgrímskirkju frá kl. 7.30 til eitt eftir miðnætti. Fólk á bíl er hvatt til þess að leggja í grennd við Laugardalshöll. Ekkert kostar að nýta sér skutlþjónustuna.
Leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu verður rofið kl. 22.30 og öllum tiltækum vögnum verður beint að Sæbraut við Sólfarið. Frá Sólfarinu verður ekið í öll hverfi á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 23 til eitt eftir miðnætti. Það kostar ekkert í þessar ferðir.
Næturstrætó tekur svo við eftir klukkan eitt og ekur eftir sínum hefðbundnu leiðum innan Reykjavíkur. Borga þarf næturgjald í næturstrætó.