„Gríðarlegt menningarslys í uppsiglingu“

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar. mbl.is/Hari

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri segist standa við yfirlýsingu Íslensku óperunnar sem birt var fyrr í dag.

Hún segir andsvar menningarmálaráðuneytisins, sem birtist stuttu síðar, skauta yfir það sem skipti máli.

Þar segir ráðuneytið sig hafa tryggt fjárframlög til íslensku óperunnar fyrir árin 2023 og 2024 til þess að koma til móts við skuldbindingar hennar, 334 milljónir alls.

Óperan ekki rekin á verkefnastyrk einum saman

„Talan 334 milljónir króna er mjög misvísandi, þar sem það er framlag síðasta árs, 196 milljónir, plús 138 milljónir sem verkefnastyrkur til óperunnar Agnesar. Samanlögð þessi tvö ár. Framlagið dugði ekki fyrir verkefninu sem var á dagskrá fyrir vorið 2024. Þannig skapast mjög löng eyða í starfseminni, eða allt frá mars 2023 fram að september 2024.“

Hún segir strípaðan verkefnastyrk verða til þess að óperan verði að leggja niður alla starfsemi. 

Íslenska óperan hafi þurft að segja upp öllu starfsfólki sínu, segja upp leigusamningi við Hörpu og láta frá sér leikmyndageymslur sínar. Allri yfirbyggingu og kostnaði sé því haldið í algeru lágmarki.

„Það sér það hver maður að það er ekki hægt að halda úti leiðandi liststofnun fyrir brot af því fé sem hún hefur verið rekin fyrir hingað til og hefur verið í áratugi, án þess að stofnunin leggist af í þeirri mynd sem við þekkjum hana.“

Íslenska óperan hefur sett á laggirnar fjölmargar uppfærslur.
Íslenska óperan hefur sett á laggirnar fjölmargar uppfærslur.

Ekki tekin í samtal um þjóðaróperu

Steinunn Birna segir að því fé sem áður fyrr hafi verið eyrnamerkt Íslensku óperunni í ráðuneytinu sé nú skipt í þrennt.

Íslenska óperan fái þriðjung, sjálfstæðir hópar í sönglist annan, og þriðja hlutann fái undirbúningshópur um þjóðaróperu.

„Við höfum ekki verið tekin inn í samtal um þjóðaróperu, þrátt fyrir að vera stærsti hagaðilinn í því máli. Ég held að fólk þurfi líka að fá frekari skýringar á hvers vegna þarf að stofna þjóðaróperu þegar fyrir er þessi stönduga stofnun, sem Íslendingar líta á sem sína þjóðaróperu.“

Vanda beri til verka

Spurð hvort hún telji ráðgjafaráð ráðuneytisins hafa haft hönd í bagga með þess ákvörðun, segir Steinunn Birna:

„Í þessu fagráði er meðal annars söngkona sem verið hefur í dómsmáli við Íslensku óperuna. Ég veit ekki hvort það hefur eitthvað að segja. Landið okkar er lítið og það er mjög erfitt að koma í veg fyrir svona árekstra, en okkur ber að reyna. Sérstaklega þegar svona mikið er í húfi, eins og framtíð heillar listgreinar. Við getum tekið nágrannalöndin okkur til fyrirmyndar og haft fagleg og vönduðu vinnubrögð.“

Hún bætir við:

„Hjá Íslensku óperunni hafa safnast upp gríðarleg menningarverðmæti og arfleifð. Því þykir okkur það vera gríðarlegt menningarslys í uppsiglingu með þessa þjóðaróperu, ef af verður, að hún sé ekki byggð á þessum góða grunni sem fyrir er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert