Lundin hrökk ofan í framsóknarkonuna

Sonja ásamt dóttur sinni, Dagmar, í göngunni um helgina.
Sonja ásamt dóttur sinni, Dagmar, í göngunni um helgina. Samsett mynd

„Maður sér bara og skannar lambakjöt. Það að athuga frá hvaða landi það er, er ekki það fyrsta sem manni dettur í hug,“ segir Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir, verkefnastjóri þingflokks Framsóknar, í samtali við mbl.is.

Mæðgurnar Sonja og Dagmar tóku þátt í einskonar jómfrúarferð ferð Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs um helgina, þegar gengið var um nýstikaða Vatnaleið.

Gönguleiðin liggur milli Hnappadals og Norðurárdals og er gist í skálum á leiðinni. 

Mikið um sauðfé á leiðinni 

Að kvöldi annars dags göngunnar, þegar hópurinn hafði gengið 22 kílómetra um grösuga dali, notið íslenskrar náttúru og fylgst með íslenska sauðfénu, var komið að kvöldverði. 

Í amstri föstudagsins hraðaði Sonja sér í verslunarferð til að grípa með nesti fyrir ferðina. Göngugarparnir höfðu ákveðið að gera vel við sig á laugardeginum og því greip Sonja með sér lambafille.

Bitinn hrökk þó ofan í starfsmann Framsóknarflokksins þegar hún áttaði sig á því að hún væri að borða innflutt lambakjöt frá Spáni.

21 ferðafélagi úr Ferðafélagi Borgarfjarðarhéraðs tók þátt í göngunni um …
21 ferðafélagi úr Ferðafélagi Borgarfjarðarhéraðs tók þátt í göngunni um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Braut odd af oflæti sínu

„Við ætluðum að fá góða endurheimt með íslensku lambakjöti, úti í íslenskri náttúru á fallegu sumarkvöldi, þegar ég verð fyrir þessum svakalegu vonbrigðum að lundirnar mínar eru spænskar,“ segir Sonja og hlær að dramatískri frásögn sinni áður en hún heldur áfram:

„Lundunum var búið að drekkja í kryddolíu sem náði þó ekki að breyta bragðinu þannig að það yrði til samanburðar við hið íslenska lamb.“

Á þessum tímapunkti segist Sonja hálfpartinn hafa misst matarlystina enda kvaðst hún svekkt og pirruð yfir því hversu lítið fór fyrir merkingum um að varan væri innflutt. Hún braut þó odd af oflæti sínu og borðaði kjötið, þó afgangurinn hafi farið í tófuna þar sem enginn úr hópnum þáði bita.

Fyrirhyggjuleysi í merkingu matvæla

Sonja gagnrýnir fyrirhyggjuleysi í merkingu matvæla þegar stundum er verið að merkja með fána og stundum ekki. 

„Maður fer að gera væntingar til þess að að kjöt sé merkt með fána sé það innflutt,“ segir Sonja, sem kallar eftir því að tekið verði betur á merkingu matvæla.

Þá helst með kröfu um að upprunaland vörunnar sé merkt með fána til þess að koma í veg fyrir misskilning. 

Verðmæt upprunamerking 

„Líka bara því íslenska lambakjötið er búið að fá PDO-merkingu,“ segir Sonja. 

Hún segir merkinguna mjög verðmæta upprunamerkingu sem ekki fáist nema undir mjög ströngum skilyrðum. Til að mynda vegna staðbundinna framleiðsluhátta og notkunar á hráefni úr nærumhverfi. 

„Þetta er sama merking og er verið að merkja franskt kampavín, gríska fetaostinn, parmaostinn og parmaskinkuna,“ segir Sonja en íslenska lambakjötið fékk merkinguna í vor.

Það er því af þeirri ástæðu og vegna þess að ekki er notað sýklalyf og vaxtarhormón eða erfðabreytt efni í lambakjötið, sem Sonja velur íslenskt lambakjöt. 

„Á tímum sem maður vill standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu, þegar íslenskir sauðfjárbændur eiga undir högg að sækja, veltir maður því fyrir sér hvort það sé í alvöru nauðsynlegt að flytja inn lambakjöt,“ segir Sonja að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert