Sorphirðubílum við hirðu á pappír og plasti hjá Sorphirðu Reykjavíkur hefur fjölgað um þrjá og því gengur vel að vinna upp þær tafir sem orðið hafa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Sorphirða í Reykjavík hefur gengið betur í þessari viku heldur en undanfarið, meðal annars vegna þess að hirðubílum hefur fjölgað og fleiri eru við störf að sögn borgarinnar.
Hirða á blönduðu sorpi og matarafgöngum er á áætlun og vonir standa til þess að hirðutíðni á pappír og plasti verði komin á áætlun eftir tvær vikur, með tveggja vikna hirðutíni.
Hirða á pappír og plasti í Grafarvogi verður að öllum líkindum lokið þann 17. ágúst og þá hefst hirða á plasti og pappír í Vesturbæ.
Íbúar eru áfram hvattir sérstaklega til að ganga vel um tunnur undir pappír og plast og brjóta vel saman umbúðir svo þær rúmist betur í tunnunum. Þá segir að gott sé að fara með viðamiklar umbúðir á grenndar- og endurvinnslustöðvar.
Upplýsingar um framgang hirðunnar má finna á vefsíðu fyrir sorphirðudagatal í Reykjavík.