Fádæma þurrt: Margar ár nánast vatnslausar

Þurrt hefur verið víða á landinu í júlí.
Þurrt hefur verið víða á landinu í júlí. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Vorið var vissulega fremur vætusamt og ekki síst í júní sunnan- og vestanlands. En fyrstu dagana í júlí skipti algerlega um veðurlag og síðan þá hefur verið fremur þurrt almennt séð á landinu. Og sums staðar fádæma þurrt,“ segir í færslu Einars Sveinbjörnssonar á veðurvefnum Bliku.

Einar segir fádæma þurrka hafa verið viðvarandi hér á landi síðan í júlí og tekur fram að það sé með ólíkindum hvað staðbundnir þurrkar hafa verið lítið til umfjöllunar.

Þurrkamet slegið í Höfn

Hann bendir á að í Stykkishólmi mældist úrkoman í júlí aðeins 4,7 mm. Það er næst þurrasti júlí frá upphafi mælinga en þær ná aftur til 1845. Í ágúst hafa aðeins bæst við 0,5 mm af úrkomu á Stykkishólmi.

Aldrei hefur verið jafn þurrt í Höfn í Hornafirði frá upphafi mælinga og í júlí en þá mældist úrkoman 11,6 mm. Einar bendir þó á að mælingar á svæðinu nái ekki langt aftur í tímann.

Á tveimur svæðum landsins má ætla að í júlí og fyrrihluta ágúst sé úrkoma innan við 10% af meðallagi.  Annað er innanverður Breiðafjörður að meðtöldum Stykkishólmi. Yfir í Dali, Hrútafjörð og V-Hún.  Hitt er er SA-lands, frá Fljótshverfi og austur í Berufjörð, að meðtöldum Hornafirði,“ segir Einar í færslunni.

Ár nánast vatnslausar

Hann segir að lukkulega hafi töluverð úrkoma fyrr í sumar bjargað miklu en að þurrkatíðin sé fyrir löngu farin að segja til sín víða. Hann bendir á að margar ár, til dæmis á Skógarströnd og í Dölum, séu að verða nánast vatnslausar. 

Norðurá við Stekk mælist með 1% meðalrennslis árstímans. Það gerir Fossá í Berufirði einnig. Og þrátt fyrir sólbráð á jöklum í þessari tíð er rennsli jökulánna fremur lítið.

Hann tekur þó fram að ekki sjái jafn mikið á gróðri eftir þurrkinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert