Fundu mannabein

Hér má sjá mannabeinin sem Rarik-menn fundu.
Hér má sjá mannabeinin sem Rarik-menn fundu. Ljósmynd/Guðmundur Stefán Sigurðsson

Starfsmönnum Rarik í Skagafirði er ýmislegt til lista lagt þótt ekki tengist það allt rafmagni en að sögn minjavarðar Norðurlands vestra eru þeir einkar lunknir við að finna kirkjugarða.

Frá þessu greinir minjavörðurinn, Guðmundur Stefán Sigurðsson, í samtali við héraðsvefmiðilinn Feyki sem í gær greindi frá mannabeinafundi þeirra Rarik-manna við bæinn Hól í Sæmundarhlíð.

Höfuðkúpa kom í ljós

„Við fengum tilkynningu núna rétt fyrir hádegið [um] að þeir v[æ]ru hérna frá Rarik að leggja heimtaug heim að bænum og rákust á bein sem þeim þóttu eitthvað torkennileg og voru eitthvað búnir að velta vöngum yfir þessu. Þeir héldu aðeins áfram og þá kom í ljós höfuðkúpa af manni, þannig að það fór ekkert á milli mála að þarna væri eitthvað sem þyrfti að skoða,“ hefur Feykir eftir Guðmundi.

Greinir hann enn fremur frá því að búið sé að finna að minnsta kosti tvær grafir og nefnir að heimildir finnist um bænahús þar á jörðinni en ekki kirkjugarð. Að sögn Guðmundar höfðu slík hús ekki heimildir til að jarðsetja fólk.

Stela þrumunni af fræðingum

Segir hann ákveðnar niðurstöður benda til þess að grafirnar séu frá því fyrir árið 1300 og lofar Rarik í hástert fyrir fundvísi á jarðneskar leifar. „Þeir eru reyndar með alveg framúrskarandi árangur, Rarik í Skagafirði, að finna kirkjugarða. Þetta er alla vega þriðji garðurinn sem þeir finna held ég. Þeir stela oft þrumunni af fornleifafræðingum, sem eru að keppast við að leita að þessu, og hafa ekkert fyrir því,“ segir minjavörður við Feyki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert