Gagnrýnir enska skilmála í starfsauglýsingum

Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lenskri mál­fræði, gagnrýnir enska skilmála …
Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lenskri mál­fræði, gagnrýnir enska skilmála í starfsauslýsingum Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lenskri mál­fræði, hefur sent mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar og vefnum Alfreð tölvupóst vegna ítarlegra skilmála á ensku sem þarf að samþykkja í sumum tilvikum er sótt er um starf. 

Í Face­book-hópn­um Mál­spjall­ið birtir Eiríkur tölvupóstinn og segir að samþykkja þurfi skilmálanna á ensku er sótt er um mörg störf hjá Reykjavíkurborg.

Uppfært kl. 13.50:

Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Alfreðs, segir í samtali við mbl.is að fyrirtæki sem auglýsa hjá Alfreð ráði því sjálf í hvaða farveg umsóknirnar fara. 

„Þetta er því ótengt okkur, kerfi sem heitir 50skills er ráðningakerfi sem fyrirtæki eða stofnanir velja sér að nota. Þá er umsækjendum beint inn á kerfið þeirra, þar sem þeir eru látnir samþykkja þeirra skilmála,“ segir Anna og bætir því við að skilmálar Alfreðs séu bæði á ensku og íslensku og því geti notandinn valið um tungumál.  

Þá hefur hún jafnframt svarað fyrirspurn Eiríks, sem birti svarið í ummælum við færsluna í Facebook-hópnum, þar sem hann segir að Reykjavíkurborg sé sökudólgurinn. 

1.800 orða skjal á ensku

Umsækjendur þurfa að haka við „Ég hef lesið og samþykki skilmála 50skills og skilmála Reykjavíkurborgar“. Skilmálar Reykjavíkurborgar eru 450 orð á íslensku en skilmálar 50skills eru 1.800 orða skjal á ensku. 

Mér finnst forkastanlegt af fyrirtækjum og stofnunum að krefjast þess að umsækjendur samþykki skilmála sem eru eingöngu á ensku. Það er bæði í fullkominni andstöðu við íslenska málstefnu og óvirðing gagnvart umsækjendum,“ segir í tölvupósti Eiríks. 

Sumstaðar gerð krafa um íslenskukunnáttu

Hann segir að vitanlega megi búast við því að fólk með takmarkaða íslenskukunnáttu sæki um sum auglýst störf og þess vegna væri ekkert við það að athuga og raunar sjálfsagt að hafa ensku – og jafnvel pólska – útgáfu af skilmálunum líka.

„En enska útgáfan er sú eina sem er í boði, jafnvel í auglýsingum þar sem gerð er sérstök krafa um íslenskukunnáttu. Það er vitaskuld algerlega óboðlegt, og sérstaklega er ámælisvert að þetta skuli gilda um auglýsingar Reykjavíkurborgar.“

Þá vísar Eiríkur í málstefnu Reykjavíkurborgar þar sem segir að íslenska skuli vera höfð í öndvegi. 

Viðkvæmar upplýsingar 

Eiríkur segir skilmálann einnig vera óboðlegan í ljósi þess að þar er fjallað um viðkvæm mál, svo sem meðferð persónuupplýsingar, og sumir umsækjendur hafa hugsanlega takmarkaða enskukunnáttu, þá sérstaklega á ensku lagamáli. 

Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvers vegna þessir skilmálar eru ekki þýddir á íslensku – það ætti hvorki að vera óvinnandi verk né óyfirstíganlegur kostnaður. Ég vonast til þess að Reykjavíkurborg og Alfreð breyti starfsháttum sínum og hætti að láta umsækjendur staðfesta skilmála á ensku. Það er lítilsvirðing við bæði íslenskuna og umsækjendur,“ segir að lokum í tölvupóstinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka