„Það er búið að vera þurrt og lítil úrkoma upp á síðkastið og allar vorleysingar búnar,“ segir Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Það er alveg eðlilegt fyrir þennan árstíma,“ segir hún en margir veiðimenn eru með böggum hildar yfir vatnsbúskapnum á Vesturlandi.
Hægt er að fylgjast með rennsli í völdum ám á vef Veðurstofunnar og þar má til dæmis sjá að rennsli í Norðurá í Borgarfirði undanfarinn sólarhring nær ekki þremur rúmmetrum á sekúndu og í Haukadalsá í Dölum er það komið undir einn rúmmetra.
Kristín kannast við vonbrigði veiðimanna vegna sumarblíðunnar. „Það hefur ekki rignt almennilega síðan í júní.“
Hún útilokar ekki að loftslagsbreytingar hafi orsakað þetta ástand. „Þær munu hafa ýmis áhrif á veðrið hjá okkur.“ Samhliða hlýju veðurfari og minnkandi vatni í ánum hefur vatnshiti hækkað og fiskur verið latur til töku. Dæmi er um að vatnshiti í ám sé kominn yfir 15 gráður.
Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir að þurrkatíðin hafi verið með eindæmum, sem hafi haft áhrif á laxveiðina á Vesturlandi síðustu daga og vikur.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.