Landsréttur lengdi varðhald í Selfossmáli um viku

Konan lést í heimahúsi á Selfossi í lok apríl.
Konan lést í heimahúsi á Selfossi í lok apríl. mbl.is/Sigurður Bogi

Landsréttur lengdi í síðustu viku gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður er um manndráp á konu í heimahúsi á Selfossi í lok apríl. Var niðurstaða Landsréttar að framlengja varðhald yfir manninum til 31. ágúst, eða um þrjár vikur, en áður hafði Héraðsdómur Suðurlands úrskurðað manninn í tveggja vikna áframhaldandi varðhald.

Fór Landsréttur þar með milliveg á milli kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi og héraðsdóms, en lögreglustjórinn hafði farið fram á fjögurra vikna framhald.

Maðurinn hefur nú sætt varðhaldi í um 16 vikur og mun þegar þessum gæsluvarðhaldsúrskurði líkur hafa setið í varðhaldi í 18 vikur, eða rúmlega fjóra mánuði.

Lög um meðferð sakamála kveða á um að ekki megi úr­sk­urða sak­born­ing til að sæta gæslu­v­arðhaldi leng­ur en tólf vik­ur nema að brýn­ir rann­sókn­ar­hags­mun­ir krefj­ist þess.

Bráðabirgðakrufning á konunni benti til þess að um manndráp væri að ræða. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, sagði fyrr í þessum mánuði í samtali við mbl.is, að ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar. Málið er enn á borði lögreglunnar á Suðurlandi og hefur ekki verið sent áfram til embættis héraðssaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert