Lýsa ekki yfir óvissustigi að svo stöddu

Frá Torfajökulssvæðinu.
Frá Torfajökulssvæðinu. Ljósmynd/Sigrún Pálsdóttir

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ætlar ekki að funda eða lýsa yfir óvissustigi vegna landrisins í Torfajökulsöskju að svo stöddu. Fylgst er með stöðunni í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands til að meta næstu skref.

Þetta segir Sól­berg Svan­ur Bjarna­son, deild­ar­stjóri hjá al­manna­vörn­um, í sam­tali við mbl.is.

Eins og greint hefur verið frá hófst landris í Torfajökulseldstöðinni í júní en land hefur risið um fjóra sentimetra á svæðinu.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur hefur sagt í samtali við mbl.is að eldstöðin gæti gosið hvenær sem er og að um háalvarlegt mál væri að ræða ef eldstöðin færi að láta á sér kræla.

Hefja gagnasöfnun

„Við erum bæði í góðu samstarfi og upplýsingaskiptum við lögreglustjórann á Suðurlandi og Veðurstofuna. Það er verið að afla frekari gagna og leggja kapp á að greina þau gögn frekar til að átta okkur á hvað er að gerast þarna. Við munum vera hluti af því samtali og þeirri samvinnu,“ segir Sólberg.

Spurður hvort óvissustigi verði lýst yfir við Torfajökul eins og gert var við Öskju þegar landris fór að mælast þar árið 2021 segir Sólberg að það hafi ekki komið til tals.

Ekki óskastaða

„Þetta er ekki óskastaða en við vinnum með þetta eins og allt annað og við erum með allt landið undir svo það eru ýmsar áskoranir í þessu eins og öðru. Við gerum okkar allra besta að vinna á mörgum vígstöðvum,“ segir hann spurður hvort að það sé erfið staða að Askja og Torfajökulsaskja séu að láta í sér heyra á sama tíma.

Hann ítrekar jafnframt að almannavarnakerfið sé byggt upp úr fjölmörgum einingum ríkisins, sveitarfélaganna og einkageirans sem vinna þétt saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert