„Með vandaðri skýrslum sem ég hef fengið“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ávarpar fundargesti stofnfundarins í …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ávarpar fundargesti stofnfundarins í Hörpu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir stofnun nýrrar Tónlistarmiðstöðvar í gær snúast um heildarsamræmingu og heildarsýn á tónlistarlíf í landinu.

Kjarnasvið Tónlistarmiðstöðvar verða þrjú. Inntón mun sinna fræðsluhlutverki og stuðningi við innlendan tónlistariðnað. Útón mun veita útflutningsráðgjöf og styðja við útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Tónverk mun svo sjá um skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka, meðal annars með því að halda úti nótnaveitu, rafrænum nótnagrunni.

Þannig verða bæði Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar og Tónverkamiðstöð felldar inn í Tónlistarmiðstöð. Formaður stjórnar Tónlistarmiðstöðvar er Einar Bárðarson. Starfshópinn sem vann að undirbúningi stofnunarinnar skipuðu Jakob Frímann Magnússon, Baldur Þórir Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir.

Taka ekki frumkraftinn frá

Lilja segir að öll tónlistarsenan hafi komið að mótun Tónlistarmiðstöðvar fyrir utan Íslensku óperuna sem verið sé að breyta í Þjóðaróperu.

„Við erum ekki að reisa nýja Tónlistarmiðstöð. Við erum að fara inn í húsnæði í Hafnarstræti. Það er rosalegur kraftur í íslensku tónlistarlífi og ég vildi passa að taka ekki þann frumkraft frá því með einhverri stofnanavæðingu. Ég er ótrúlega ánægð með þetta og fólkið sem var að vinna að þessu númer eitt, tvö og þrjú.“

Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem stofnuð er á grundvelli nýsamþykktra Tónlistarlaga og rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð. Hún starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn hennar setur og staðfestir.

Tónlistarmiðstöðinni er ætlað að sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk …
Tónlistarmiðstöðinni er ætlað að sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins og kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk erlendis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlutverk tónlistarmiðstöðvar er að:

  • vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, menningarstofnana, menntastofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar
  • hafa umsjón með rekstri og starfsemi tónlistarsjóðs
  • stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskri tónlist og nótum og starfrækja nótnaveitu fyrir íslensk tónverk
  • veita tónlistarfólki og fyrirtækjum sem markaðssetja tónlist ráðgjöf og þjónustu, styðja útflutning á tónlist og stuðla að auknum samskiptum og tengslamyndun við erlenda aðila á sviði tónlistar
  • sinna afmörkuðum verkefnum tengdum rannsóknum og tölfræði um íslenskan tónlistariðnað
  • styðja varðveislu menningararfleifðar á sviði tónlistar með ráðgjöf, fræðslu og þjónustu.

Menningarmiðstöð í New York haft samband

Lilja segir að búið sé að breyta innviðum mikið bæði á síðasta kjörtímabili og þessu. Sett hafi verið á laggirnar Sviðslistamiðstöð og nú hafi Tónlistarmiðstöð verið stofnuð að sama skapi.

Segir hún nýja glæsileg menningarmiðstöð í New York hafa sett sig í samband með það fyrir augum að fá íslenska tónlist og verið sé að hugsa um sviðlistir einnig.

„Þeir eru að bjóða okkur í samstarf og vegna þess að við erum búin að breyta öllum þessum innviðum þá fara þessi erlendu aðilar beint í sviðslistamiðstöðina og svo núna í tónlistarmiðstöðina. Tónlistarinnviðir voru svolítið byggðir upp á öflugu fólki á borð við Sigtrygg Baldursson en það er ekkert tryggt að við höfum alltaf einhvern Sigtrygg Baldursson.

Þess vegna var allt þetta fólk tilbúið að leggjast á árarnar. Ég fékk með vandaðri skýrslum sem ég hef fengið á mínum pólitíska ferli frá þessu fólki og það var ekkert annað en að grípa boltann og kýla á þetta.“

Tónlistarfólkið, Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius, skemmtu viðstöddum.
Tónlistarfólkið, Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius, skemmtu viðstöddum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert