„Ég átti ekki til eitt einasta orð að sjá þetta svona,“ segir Svanbjörg Pálsdóttir, sem ásamt öðrum gekk fram á þúsundir sígarettustubba í fjöru skammt utan byggðar á Eskifirði í gær
Tildrög stubbanna eru með öllu óljós en nokkur skipaumferð er á svæðinu og engu líkara en að að þeir hafi komið af einhverju skipi sem þarna fór hjá. „Fyrst tókum við ekki eftir þessu þar sem þetta virtist vera þari. En svo þegar nær var komið áttuðum við okkur á því að þetta væru sígarettur,“ segir Svanbjörg furðu lostin.
Svanbjörg segist koma reglulega í fjöruna sem alla jafna er hrein eins og flestar fjörur landsins. Annað var uppi á teningnum í gær. „Þetta var allt í lítilli vík. Á svona 20-30 metra svæði. Þykkt lag af stubbum,“ segir Svanbjörg.
Erfitt er að gera sér í hugarlund hver hefur hagsmuni af því að henda sígarettum í sjóinn. Að sögn Svanbjargar var annað hvort eingöngu um stubba að ræða eða þá að filterinn hafi einn staðið eftir í kjölfar þess að sígarettur hafi volkast fram og aftur í sjónum. Því var ekki hægt að greina hvers konar tegund er um að ræða. Hvergi voru pakkningar utan um sígaretturnar sjáanlegar.
Svanbjörg tilkynnti Fjarðarbyggð um mengunina og að sögn hennar fékk hún svar strax í morgun um að snarplega verði brugðist við. „Mér finnst þetta vera lögreglumál. Mér fannst ég allavega þurfa að tilkynna þetta um leið,“ segir Svanbjörg.