Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir nýja þjóðaróperu auðvitað verða mjög glæsilega.
Tilefnið er áskorun stjórnar Íslensku óperunnar á ríkisstjórn Íslands um að standa vörð um þá mikilvægu menningarstarsemi sem Íslenska óperan hefur staðið fyrir og koma í veg fyrir það menningarslys sem af því hlytist að leggja stofnunina niður.
Íslensku óperunni hefur verið tilkynnt að rekstrarframlögum til stofnunarinnar verði hætt.
„Við erum að taka þetta í skrefum. Við þurfum að byggja upp innviðina. Það sem er að gerast í óperuhúsum, sinfóníuhljómsveitum og þjóðleikhúsum annarra ríkja er miklu meira samstarf. Við erum að vinna að því núna,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.
Þórunn Sigurðardóttir vinnur að því með menningar- og viðskiptaráðuneytinu að skoða hvernig hægt sé að nýta Sinfóníuhljómsveitina og Þjóðleikhúsið í samstarfi við þjóðaróperuna.
„Við þurfum að nýta alla innviðina þar í staðinn fyrir að búa til nýja þjóðaróperu og nýta þessa peninga eins vel og við mögulega getum.“
Lilja segir stjórnvöld vilja sjá nýtt rekstrarfyrirkomulag á óperunni og meiri samnýtingu á tónlistar- og sviðslistainnviðum en áður hefur verið og að það sé farsælla að gera það í samstarfi og í nýrri þjóðaróperu.