Virk eldstöð sem getur gosið hvenær sem er

Þorvaldur Þórðarson segir að eldgos í Torfajökulsöskju yrði alvarlegt mál.
Þorvaldur Þórðarson segir að eldgos í Torfajökulsöskju yrði alvarlegt mál. Samsett mynd

„Eldstöðin er að minna á sig og segir: Ég er virk eldstöð og ég get farið að gjósa þegar mér dettur í hug.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur um landrisið í Torfajökulsöskju sem hófst um miðjan júní. Land hefur risið um fjóra sentimetra á svæðinu á tveimur mánuðum. Kvika virðist vera að safnast fyrir og valda þenslu í eldstöðinni.

Mögulega á tiltölulega grunnu dýpi

Þorvaldur hefur áður sagt að það yrði háalvarlegt mál ef eldgos hæfist í Torfajökulsöskju en svæðið er stærsta jarðhitasvæðið á landinu. Þorvaldur bendir nú á í samtali við mbl.is að það gæti orðið minniháttar gos í Torfajökulsöskju en telur þó meiri líkur á að þar verði stórt sprengigos með tilheyrandi gjóskufalli sem gæti haft stórfelldar afleiðingar í för með sér.

„Ef það byrjar að gjósa þarna myndi ég búast við að það byrji með tiltölulega öflugu sprengigosi. Það fer þá eftir vindátt hvar gjóskufallið verður mest.“

Aðspurður segir Þorvaldur ómögulegt að segja til um á hvaða dýpi kvikan er að safnast saman en tekur þó fram að honum finnist líklegast að hún sé á um fjögurra til átta kílómetra dýpi.

„Mig grunar að þetta sé ekki mjög djúpt, kannski á bilinu fjögurra til átta kílómetra dýpi. Ef hún er komin upp fyrir fjóra kílómetra myndi ég fara að hafa áhyggjur. Þá er ekki langt til yfirborðs.“ 

Töluvert af ferðafólki á svæðinu

Hann segir lengd fyrirboðans fyrir eldgos skipta öllu þegar það kemur að því hverjar afleiðingarnar verða. Hann bendir á að töluvert af ferðamönnum séu í Torfajökulsöskju á gönguleiðum á svæðinu og að Landmannalaugar séu skammt undan. 

„Ef við fáum góðan fyrirboða þá getum við rýmt svæðið en ef hann er stuttur þá getur það haft miklar afleiðingar í för með sér. Sama gildir hér og um Öskju, við höfum kannski ekki miklar upplýsingar um hvernig eldstöðin býr sig undir gos og hversu mikla viðvörun hún gefur okkur.“

Árstími skipti miklu máli

Hann tekur einnig fram að það skipti miklu máli hvenær á árinu gjósi og bendir á að töluvert betra væri að fá eldgos að vetri til í öskjunni.

„Ef það verður sprengigos þá fer þetta það hátt upp að þetta fer upp í heiðhvolfið og að vetri til er flæðið í heiðhvolfinu frá vestri til austurs en á sumrin frá austri til vesturs. Það getur farið eftir árstíma hvert gosmökkurinn fer.“

Hann bendir á að það yrði að öllu leyti skárra að fá eldgos að vetri til og vísar til þess að þá myndi eldgos ekki hafa jafn mikil áhrif á flugumferð við Keflavíkurflugvöll en einnig vegna þess að fáir gera sér leið á hálendið að vetri til.

Ekki góður tími til að mála þakið

„Þetta er skárri kosturinn af tveimur slæmum. Ef þetta er að sumri til og fer til vesturs þá gæti Reykjavíkursvæðið lent í verulegu gjóskufalli, það er ekkert lífshættulegt en gæti valdið verulegum óþægindum. Það er ekki gott að vera að mála þakið á þeim tíma,“ segir Þorvaldur kíminn.

Þorvaldur ítrekar mikilvægi þess að fylgjast vel með eldstöðinni til að meta hvort að það þurfi að rýma eða loka svæðinu ef skjálftavirkni fer að aukast eða ef kvikan kemst nær yfirborðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka