Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir að samband við almannavarnir sé virkara en venja er vegna fregna um landris við Öskju og Torfajökul. Báðir staðir eru við vinsæla viðkomustaði fyrir útivistarfólk.
Hlutverk Ferðamálastofu er að halda um fjögur þúsund ferðaþjónustufyrirtækjum upplýstum um stöðu mála auk þess að eiga í samskiptum við lögregluembætti í landinu þegar bregðast þarf við.
„Það eru allir í startholunum. Við fáum nýjustu upplýsingar um stöðu mála. En svo veit maður aldrei hvort að eldgos verði einhver lítil spýja eða eitthvað meira. Við getum orðað það þannig að allir þræðir eru virkir þegar landris er í gangi. Um leið og einhver merki eru um óróa þá virkjum við samband við almannavarnir og styttum boðleiðirnar,“ segir Arnar.