Andlát: Helgi Kjartan Sigurðsson

Helgi Kjartan Sigurðsson.
Helgi Kjartan Sigurðsson.

Helgi Kjartan Sigurðsson skurðlæknir lést í faðmi fjölskyldunnar á gjörgæsludeild Landspítalans þann 6. ágúst, 55 ára að aldri.

Helgi Kjartan fæddist í Reykjavík 8. október 1967, sonur hjónanna Sigurðar G. Sigurðssonar og Guðríðar Helgadóttur.

Helgi varð stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1987 og Cand. med. frá Háskóla Íslands 1994. Hann stundaði sérfræðinám í skurðlækningum við Háskólasjúkrahúsið í Stavanger og fékk sérfræðiréttindi í almennum skurðlækningum árið 2001 og í kviðarholsskurðlækningum árið 2003. Hann lauk doktorsprófi í krabbameinsskurðlækningum frá Háskólanum í Bergen árið 2008.

Helgi starfaði sem deildarlæknir á svæfingar- og skurðdeild Borgarspítalans árin 1995-1996, en 1996-1997 vann hann jafnframt sem læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Hann starfaði sem sérfræðingur í kviðarholsskurðlækningum á Landspítala frá 2007 til dánardags. Hann var einn af stofnendum Miðstöðvar meltingalækninga árið 2013 á Læknastöðinni í Glæsibæ og starfaði þar sem sérfræðingur í skurðlækningum til dánardags. Frá árinu 2022 starfaði hann einnig á Læknastöð Akureyrar.

Helgi var virkur í málefnum lækna og heilbrigðisstarfsmanna. Hann sat í samninganefnd ungra lækna 1996-1997 og var formaður Skurðlæknafélags Íslands árin 2012-2016 og gjaldkeri félagsins 2016-2018. Hann var aðjunkt við Læknadeild Háskóla Íslands um árabil og var virkur í kennslu á Landspítala. Helgi Kjartan var farsæll í starfi og naut virðingar samstarfsmanna sinna og sjúklinga. Hann var vinmargur og lét sér annt um hag fjölskyldu sinnar, barna sinna og barnabarns.

Eftirlifandi eiginkona Helga er Birna Björk Þorbergsdóttir, f. 1968. Börn Helga og Birnu eru: Daði Freyr, f. 1992, kvæntur Steinunni Birnu Sveinbjörnsdóttur, sonur þeirra er Kjartan Egill, f. 2022, Sóley Sif, f. 1997, unnusti hennar er Þórður Friðriksson, og Silja Dögg, f. 2000, unnusti hennar er Úlfur Örn Björnsson.

Útför Helga fer fram frá Hallgrímskirkju á morgun, föstudag, klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert