Bílbruninn í morgun kominn til héraðssaksóknara

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir að rannsókn bílbrunans í morgun sé …
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir að rannsókn bílbrunans í morgun sé komin til embættisins. Samsett mynd

Sérsveitarmenn á ómerktum bílum brugðust við bílbruna við Rekagranda um klukkan níu í morgun.

Ásmundur Rúnar Gylfason, stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gat ekki staðfest fyrr í dag hvort um íkveikju hefði verið að ræða.

Þegar leitað var aftur til Ásmundar Rúnars nú síðdegis sagði hann málið komið til héraðssaksóknara til frekari rannsóknar. Hann gaf ekki frekari upplýsingar um málið.

Héraðssaksóknari staðfestir rannsókn máls

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfesti við mbl.is að málið væri komið til embættisins. Hún vildi ekki tjá sig að öðru leyti, enda væri málið á algeru frumstigi.

Athygli vekur hversu fljótt málið ratar til héraðssaksóknara, nokkrum klukkustundum eftir brunann. Samkvæmt því sem segir á vef héraðssaksóknara rata einkum tvenns konar mál til embættisins til frekari rannsóknar:

„Héraðssaksóknari rannsakar mál á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans annarra en starfsmanna héraðssaksóknara en slík mál eru á forræði ríkissaksóknara.“

Og hins vegar:

„Héraðssaksóknari rannsakar brot gegn valdstjórninni, sbr. XII. kafli almennra hegningarlaga.  Brot sem koma til kasta lögreglu vegna ákvæða þessa kafla eru brot er varða ofbeldi gegn opinberum starfsmönnum þegar þeir gegna skyldustörfum sínum eða vegna þeirra svo og hótanir um ofbeldi.“

Sem fyrr segir fékk mbl.is ekki frekari staðfestingu um hvers konar brot átti sér stað við bílbrunann í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert