Bubbi: „Viljum við tala íslensku?“

Bubbi Morthens tónlistarmaður.
Bubbi Morthens tónlistarmaður. mbl.is/Eyþór

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens segir að hart sé sótt að íslenskunni, svo kalla megi hernað gegn móðurmálinu. Það gerir hann í skorinorðri grein á miðopnu Morgunblaðsins í dag og hvetur Bubbi fólk til þess að spyrna við og rísa upp til varnar móðurmálinu, sem geri hana að þjóð.

„Ísland er ekki lengur það sem það var þegar ég var ungur. Það er varla til sá blettur lengur á landi voru þar sem ekki má sjá fótspor og rusl. Höfuðborgin Reykjavík er þakin skiltum á ensku. Allir veitingastaðir eru með ensku sem fyrsta mál, matseðlar þar með taldir, og það sem meira er: það talar enginn íslensku á þessum stöðum – sumir segja vegna þess að Íslendingar fáist ekki í störfin,“ skrifar Bubbi.

Íslenskan að verða hornreka

„Og dropinn holar steininn. Íslenskan sem tungumál er að verða hornreka í orðsins fyllstu merkingu. Það má vera að ráðafólki þjóðarinnar finnist þetta léttvægt og taki fagnandi bréfum skrifuðum á ensku frá Samtökum atvinnulífsins sem vilja undanþágu fyrir skipafélagið Eimskip. En þá er það vegna þess að við erum í auga stormsins þar sem lognið er.

En fyrir utan geisar fárviðri – fellibylur. Og hann hefur nafn og hann heitir Enska. Fellibylurinn Enska fer yfir landið og rífur tungumálið okkar upp með rótum úr jarðvegi sínum. Ég fór um daginn að hugsa um lögin mín, Blindsker, Rómeó og Júlíu, Afgan, Gott að elska, Fjöllin hafa vakað, Synetu og Regnbogans stræti svo einhver séu nefnd, öll samin á íslensku fyrir fólkið sem talar og skilur málið,“ skrifar Bubbi og heldur áfram.

Getum ekki lengur setið hjá

„Íslenskan er kjarninn í list minni, hjartað í lögunum. Ég hef verið hæddur og smættaður fyrir það að ég væri skrifblindur, ekki skrifandi á íslensku. Hér áður fyrr töldu menntamenn mig jafnvel ógna tungumálinu. Þó er það svo að íslenskan mín er auðskilin og lögin mín hafa ratað í hjarta þjóðarinnar vegna þess að þau eru sungin á íslensku.

Við erum komin á þann stað að við verðum að spyrja okkur öll sem hér búum: Viljum við tala íslensku? Viljum við lesa íslensku? Viljum við syngja íslensku lögin okkar með öllum orðunum sem við skiljum með hjartanu og sálinni? Ef svarið er já þá getum við ekki lengur setið hjá, við verðum að rísa upp.“

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Bubbi ræðir um íslenskuna og hlutverk hennar, en tæplega 30 ár eru meðal annars síðan hann gaf út plötuna 3 heimar þar sem lagið Maður án tungumáls er að finna. Þar beinir hann sjónum að aukinni enskunotkun, ekki síst meðal þeirra sem vilja syngja á ensku. Í lokalínu lagsins segir hann: „Maður án tungumáls er fátækur fjandi. Furðulegt hvað málið mitt er orðið mikill vandi.“

Grein Bubba í heild sinni er að finna á síðu 41 í Morgunblaðinu í dag.

 

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka