Eldur kviknaði í bíl á bílastæði

Eldur kvikanði í bíl á bílastæði við Rekagranda um klukkan níu í morgun. Að sögn sjónarvotts voru á staðnum margir sérsveitarmenn á ómerktum bílum og var gatan lokuð um tíma.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is, að sérsveitin hafi verið nærri þegar tilkynningin kom og hafi þess vegna farið á vettvang.

Segir Gunnar að leitað hafi verið á staðnum og í nágrenninu en segir óljóst hvort tilkynnt hafi verið um grunsamlegar mannaferðir á svæðinu.

Ekki liggur fyrir hvort um íkveikju hafi verið að ræða.

Ásmundur Rúnar Gylfason stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segist lítið geta tjáð sig um málið á upphafsstigum þess. Málið er í rannsókn.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins logaði eldur undir bílnum og á hliðinni á honum en greiðlega gekk að slökkva eldinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert