„Það var nú fyrir mína tíð, þeir eru hættir núna sem fundu hina kirkjugarðana,“ segir Sigurður Snorri Gunnarsson, rafvirki í vinnuflokki Rarik, í samtali við mbl.is en eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær fundu þeir félagar mannabein í landi Hóls í Sæmundarhlíð í Skagafirði er þeir grófu fyrir heimtaug.
Eins og fram kom í téðri frétt, er byggði á frétt héraðsmiðilsins Feykis, hafa starfsmenn Rarik verið fundvísir á kirkjugarða hin síðustu ár, að sögn Guðmundar Stefáns Sigurðssonar, minjavarðar Norðurlands vestra, en þetta er fyrsti beinafundur Sigurðar eins og hann segir hér í upphafi.
„Við vorum að moka þarna niður brekkuna þegar við sáum bein og héldum fyrst að þetta væri bara lærleggur af einhverri skepnu sem hefði drepist þarna í gamla daga en svo fundum við meira og fórum eitthvað að púsla þessu saman og skömmu síðar fundum við mjaðmagrind,“ segist Sigurði frá beinafundi þeirra Hjartar Týs Björnssonar samstarfsmanns hans.
Dró svo til tíðinda þegar höfuðkúpa birtist í moldinni mjúku og skammt frá fundust svo jarðneskar leifar annarrar manneskju. Fyrri beinagreindin er talin vera af karlmanni miðað við stærð mjaðmagrindarinnar en ekki er ljóst um kyn þeirrar síðari enn sem komið er.
Hvað sem kirkjugörðum líður og fundvísi á þá má hins vegar ljóst vera að sjaldan er ein báran stök í fornleifafundum Rarik-manna. Eftir að þeir breyttu um stefnu á skurði sínum í gær, til að vernda það sem nú þykir ljóst að sé kirkjugarður, grófu þeir fljótlega niður á skála sem að sögn Guðmundar minjavarðar gæti verið frá víkingaöld.
„Það eru vísbendingar um að það geti verið,“ segir minjavörðurinn við mbl.is, „við eigum eftir að skoða þetta nánar, ég kíkti aðeins í skurðinn í dag og þarna eru tveir torfveggir sem eru undir gjóskulaginu frá 1104 sem þýðir að þeir eru alla vega eldri en það, frá 8., 9. eða 10. öld, maður veit það ekki alveg, við eigum eftir að skoða það,“ segir Guðmundur.
Einnig segir hann eitthvað sem hann telji vera eldstæði vera þarna skammt frá kirkjugarðinum og því spennandi tímar fram undan í hans fræðigrein. Einhverja bið segir hann þó verða á nákvæmum rannsóknum þar sem hann sé nú niðurgrafinn við rannsóknir kirkjugarðsins á Silfrastöðum en sem minjavörður Norðurlands vestra er Guðmundur eins manns starfsstöð eins og hann orðar það.
„En við hjálpumst auðvitað að og ég get fengið aðstoðarfólk þegar á þarf að halda, til dæmis er fornleifadeild við Byggðasafn Skagafjarðar og ég get fengið mannskap þaðan,“ segir hann.
Sigurður rafvirki heldur áfram og segir af fundi skálans í gær. „Við tókum aðra stefnu, nokkrum metrum sunnar og héldum að við slyppum þá fram hjá kirkjugarðinum. Þar fundum við svo, að því er minjavörðurinn telur, eldstæði og skála sem gæti verið frá víkingaöld, það er náttúrulega ekki búið að staðfesta það enn þá,“ segir hann.
Þeir félagar frá Rarik hafa nú lokið öllum mokstri á svæðinu og eiga bara eftir að tengja heimtaugina. „Öllu jarðraski af okkar hálfu er lokið,“ segir Sigurður og því ljóst að nú þurfa Guðmundur og aðrir fornleifafræðingar að draga fram skófluna eigi að finna frekari leifar á svæðinu.
Blaðamaður freistast til að spyrja Sigurð hvort hann hafi íhugað að venda sínu kvæði í kross og skella sér í fornleifafræðina í ljósi fundvísi þeirra Hjartar á fornar minjar. „Ja, ég lærði það alla vega þarna að fornleifafræðin er miklu áhugaverðari og skemmtilegri en ég átti von á,“ segir rafvirkinn að skilnaði og hlær við – þó án þess að láta nokkuð uppi um hugsanlegt nám í fornleifafræðum er fram vindur.
Guðmundur minjavörður segir að í næstu viku muni hann fara ásamt samstarfsfólki og skoða skurðina í Sæmundarhlíðinni betur, hreinsa sniðið og mæla upp sem kallað er. „Svo er pínu óljóst með framhaldið, hvort farið verði í frekari rannsóknir eða þetta geymt í bili,“ segir minjavörður, „núna vitum við af þessu og vitum hvað þarna er, að einhverju leyti alla vega, það er mjög spennandi og þetta bætir töluvert miklu við sögu þessa bæjar, elstu heimildir um hann eru frá fimmtándu öld.“
Segir hann ekki hafa verið vitað hvar bænahúsið var, sem nefnt er í fréttinni frá í gær, það hafi verið talið vera annars staðar og því séu nú komnar fram nýjar upplýsingar.
Blaðamaður spyr Guðmund út í fyrri kirkjugarðsfundi þeirra Rarik-manna sem hann hefur hrósað mjög fyrir fundvísi sína sem áður segir og svarar minjavörður því til að þar sé um að ræða kirkjugarð við bæinn Keflavík á Hegranesi sem fannst snemma í október 2013 og annan á Steinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi sem fannst skömmu fyrir aldamótin síðustu.