Isavia vill fella 2.900 tré í Öskjuhlíð

Fyrri myndin gefur hugmynd um hve stór hluti skógarins hverfur …
Fyrri myndin gefur hugmynd um hve stór hluti skógarins hverfur verði 1.200 tré felld. Sú síðari gefur hugmynd um þann hluta skógarins í Öskjuhlíð sem hverfur verði öll tré innan aðflugsflatarins felld, um 2.900 tré, samkvæmt kröfu Isavia. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Innanlandssvið Isavia krefst tafarlausrar fellingar um 2.900 trjáa í Öskjuhlíð og til vara 1.200 hæstu trjáa þar. Um er að ræða einn elsta samfellda skóg í Reykjavík, nánar tiltekið skóglendi Öskjuhlíðar frá svæðinu við Háskólann í Reykjavík að svæði kirkjugarðsins í Fossvogi og Perlunnar.

Erindi þessa efnis var lagt fyrir borgarráð í dag og var samstaða um þá málsmeðferð að beiðnin færi til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar, að því er borgin greinir frá í tilkynningu. 

Trjágróður farinn að verða raunveruleg öryggisógn

Í minnisblaði Isvia kemur fram, að nú sé svo komið „að trjágróður í Öskjuhlíð er farin að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13. Vindafar ræður notkun flugbrauta og flugbraut verður að vera aðgengileg og örugg til þess að tefla ekki rekstraröryggi flugvallarins í tvísýnu.“

Er það krafa Isavia innanlandsflugvalla að Reykjavíkurborg bregðist við hættunni án tafar.

Tveir möguleikar eru í stöðunni.

  1. Að landeigandi bregðist við hættunni í eitt skipti fyrir öll og felli öll tré innan þessara tveggja geira aðflugsflatarins (OCS og VSS) – u.þ.b. 2900 tré.
  2. Öll tré sem skera VSS- flöt eru felld (u.þ.b. 800 tré) ásamt öllum trjám sem eiga minna en 3m upp í VSS-flöt (u.þ.b. 400 tré) – samtals 1200 tré. Isavia Innanlandflugvellir eiga GPS-hnit af öllum þessum trjám.
Kort/Isavia

Framkvæmd sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir, að ætla megi að krafa Isavia nái að lágmarki til um helmings elsta og hæsta skógarins í Öskjuhlíð og um þriðjungs samfellds skógar þar í heild.

„Krafan varðar stórt svæði, skóg sem nýtur hverfisverndar í deiliskipulagi og svæði í Öskjuhlíð sem nýtur verndar sem borgargarður í aðalskipulagi. Auk þess er Öskjuhlíð á náttúruminjaskrá. Þá fellur umrædd trjáfelling undir lög nr. 111/2021 um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda en í lögunum er kveðið á um að varanleg skógareyðing sem taki til 0,5 hektara svæðis eða stærra falli undir flokk B í lögunum. Þar er átt við framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki hvort háðar skuli umhverfismati,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Öskjuhlíð eins og hún gæti litið út eftir að búið …
Öskjuhlíð eins og hún gæti litið út eftir að búið væri að fella öll tré innan aðflugsflatarins, um 2.900 tré. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Þá kemur fram, að aðgerðir af þeim toga sem Isavia geri kröfu um myndu kalla á verulegar breytingar á deiliskipulagi og hugsanlega endurskoðun aðalskipulags. Framkvæmdin sjálf væri háð reglugerð um framkvæmdaleyfi og leita þyrfti umsagna fjölda aðila, þar á meðal Náttúrufræðistofnunar þar sem svæðið er á náttúruminjaskrá.

Það var því samþykkt á fundi borgarráðs í dag að senda erindi Isavia til umfjöllunar hjá umhverfis- og skipulagsráði áður en afstaða til þess verður tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka