Ísland enn á þriðja hættustigi

Karl Steinar segir atburðarásina undanfarið hljóta að vega þungt.
Karl Steinar segir atburðarásina undanfarið hljóta að vega þungt. Samsett mynd

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, segir Ísland enn vera á þriðja hættustigi vegna hryðjuverka.

Því hættustigi var lýst yfir 13. desember á síðasta ári, þegar Landsréttur aflétti gæsluvarðhaldi á sakborningum vegna ætlaðs skipulags á hryðjuverkum.

Fylgjast vel með ákvörðun Svía

Karl Steinar segir ríkislögreglustjóra fylgjast vel með ákvörðun sænsku ör­ygg­isþjón­ust­unn­ar Säpo í dag, þar sem tilkynnt var að Svíar væru komnir á fjórða hættustig. Þar segir:

„Mik­il ógn: Lík­urn­ar á því að aðilar hafi ásetn­ing og getu til að gera árás eru mikl­ar. Til að stigi 4. sé náð þarf áþreif­an­leg ógn að steðja að Svíþjóð.”

„Svíar taka það fram að það er ekki eitthvað eitt einstakt atriði sem veldur þessari hækkun. Hún kemur ekki bara vegna Kóranbrennanna. Þetta er flóknara samspil. Atburðarásin núna hlýtur samt að vega þungt,“ segir Karl Steinar.

Vísar hann til þess að hryðjuverkasamtökin Al-Kaída hafi kallað eftir árásum á Danmörku og Svíþjóð vegna nýlegra Kóranbrenna í löndunum tveimur. Hann segir Dani þegar á fjórða stigi og að þeir hafi verið á því í þó nokkurn tíma.

Virkt samtal milli Norðurlandanna

„Það er mjög virkt samtal á milli Norðurlandanna, þótt hvert land fyrir sig taki sínar sjálfstæðu ákvarðanir. Á reglulegum fundum á milli okkar ræðum við þessar ákvarðanir. Samfélög okkar eru það lík og sömuleiðis umgerðin sem við störfum eftir.“

Þar vísar Karl Steinar til dæmis til Norðmanna sem juku hættustig sitt í kjölfar árásar á gleðigönguna í Osló í fyrra.

„Þeir hafa gert meira af því að hækka tímabundið og lækka. Við hin Norðurlöndin hækkum í dálítinn tíma og tökum svo ákvörðun um að lækka aftur ef ástæða er til.“

Lítil hætta af hryðjuverkum íslamista

Hann tekur fram að almennt hafi áhætta af hryðjuverkum íslamista verið talin lág hér á landi. Eins og sagði í hættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því snemma árs 2021:

„Ólíkt því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum heldur lögreglan ekki uppi viðvarandi eftirliti með íslenskum ríkisborgurum sem grunaðir eru um að aðhyllast herskáan íslamisma.“

Karl Steinar segir að lokum:

„Við erum meðvituð um það að margir íslenskir ríkisborgarar eru staddir á hinum Norðurlöndunum hverju sinni. Ef eitthvert landanna færi upp á efsta stig þá myndum við skoða hvernig hægt væri að miðla því til fólks sem þar er statt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert