Mikinn kraft þarf til að taka tappann úr Heklu

Erik Sturkell fyrir miðju. Til hægri er eiginkona hans og …
Erik Sturkell fyrir miðju. Til hægri er eiginkona hans og vinstra megin er frændi hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hekla er búin að skipta um gír. Ég held það þurfi miklu meiri kraft til þess að hún gjósi núna, samanborið við síðustu gos,“ segir Erik Sturkell, prófessor í jarðeðlisfræði við háskólann í Gautaborg.

Eins og Morgunblaðið greindi frá í dag heldur land áfram að rísa við Heklu sem er ein stærsta og virkasta eldstöð landsins.

Erik mældi landris við Heklu á mánudag en blaðamaður ræddi við hann í Bátshrauni við Öskjuvatn í gær þar sem hann var einmitt í sömu erindagjörðum.

Allur búnaður er borinn á svæðið, hátt í 3 kílómetra …
Allur búnaður er borinn á svæðið, hátt í 3 kílómetra leið og er hluti leiðarinnar í gegnum Bátshraun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvikugangurinn storknað meira

„Það er meira landris, en ég er ekki búinn að klára að reikna út hversu mikið,“ sagði prófessorinn um Heklu. Hann rekur kenningar sínar sem liggja að baki þess að hann telji að meiri kraft þurfi núna til að „taka tappann úr Heklu“, eins og hann komst að orði. 

„Það gaus með svo stuttu millibili í síðustu gosum og þá náði kvikugangurinn ekki að storkna jafn mikið og hann hefur gert núna. Síðast gaus árið 2000 og nú held ég að það þurfi miklu meiri kraft til að taka tappann úr, eins og í kampavínsflösku,“ segir Erik. 

Erik hefur tekið yfirborðsmælingar við Heklu og Öskju frá árinu 1998, að undanskildu einu eða tveimur árum þegar hann komst ekki að Öskju. Með gervihnattamyndum og InSAR-myndum gefa þessar mælingar betri heildarmynd af því hvernig landrisið er við þessar aflmiklu eldstöðvar. 

Erik les af mælinum og þylur upp tölurnar á íslensku …
Erik les af mælinum og þylur upp tölurnar á íslensku og sænsku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ganga með allan búnað

Yfirborðsmælingar á landi eru ekki auðvelt verk. Blaðamaður fylgdi eftir Erik, eiginkonu hans og frænda sem aðstoðuðu hann við mælingarnar í gær. 

Fyrst óku þau upp á bílastæðið við Öskju og gengu þaðan með mælitækin. Erik segir að mælingarnar myndu ganga hraðar fyrir sig ef hann væri með tvennt af öllu, en að þau leggi ekki í að taka svo mikinn búnað með upp að vatninu.

Til mælinganna notar hann þrífót af stærri gerðinni, stiku og tæki sem mælir hæðina á milli. 

Þennan búnað þarf að ganga með 2,5 kílómetra frá bílastæðinu inn að Öskjuvatni. Í gær framkvæmdi hann mælingar í Bátshrauni sem er alveg niðri við vatnið. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Naglarnir leynast í hrauninu

Þar eru sex naglar sem finna þarf í hrauninu. Þrátt fyrir að vera í um 25. sinn við vatnið þurfti prófessorinn að klóra sér í kollinum og leita vel til að finna naglana. Við naglann er stikan sett upp og þrífætinum svo komið upp við vörður sem hann hefur lagt í hrauninu. 

„Maður þarf alltaf að leita að þessum nöglum,“ segir Erik á meðan hann bjástrar við að koma upp þrífætinum. Þegar allt er klárt les hann af mælitækinu sem hann kemur fyrir á þrífætinum. 

Þá skiptast hann og eiginkona hans á að þylja upp tölurnar af tækinu og hitt skrifar í appelsínugula bók. 

„Það tekur bara um klukkutíma að fá niðurstöður,“ segir Erik og á þá við að þegar búið er að sækja gögnin upp að vatni þurfi hann um klukkustund til að reikna upp úr bókinni góðu hversu mikið landrisið er og hver hallinn er að þessu sinni.

Bátshraun myndaðist í eldgosi fyrir um hundrað árum. Eldgosið varð …
Bátshraun myndaðist í eldgosi fyrir um hundrað árum. Eldgosið varð rétt ofan við Öskjuvatn og rann beint niður í vatnið og yfir bát sem var þar á bakkanum. Því ber hraunið nafnið Bátshraun. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert