Hekla, eitt þekktasta og virkasta eldfjall Íslands, heldur áfram að þenjast út. Þetta sýna nýjar mælingar sem kynntar voru á vikulegum fundi Jarðvísindastofnunar í gær.
Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur stýrði fundinum en hann segir við Morgunblaðið að þenslan gefi í skyn að næsta gos verði öflugra en síðustu gos.
Segir Halldór að Hekla hafi verið að þenjast út frá seinasta gosi árið 2000.
Nefnir hann að eldstöðin hafi á öldum áður gosið á 50-100 ára fresti en eftir að stórt gos varð í Heklu árið 1947 hafi hún farið í „óvenjulegan ham“ og gosið oftar. Bætir hann við að Heklugos hafi yfirleitt stuttan fyrirvara.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við Morgunblaðið árið 2021, að þenslan hefði verið orðin jafn mikil um árið 2006 og hún var áður en síðast gaus. Síðan má segja að fjallið hafi verið tilbúið í gos.
„Hekla er ekki vön að gefa merki um aðsteðjandi gos fyrr en mjög skömmu áður en það brýst út. Það gerir hana svo varasama,“ sagði Páll.
Nánar er fjallað um allar þær eldstöðvar landsins, sem bært hafa á sér að undanförnu, í Morgunblaðinu í dag.