Lagastofnun Háskóla Íslands hefur skilað til forsætisráðuneytisins álitsgerð sinni varðandi álitamál í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga viðvíkjandi þjónustu við einstaklinga sem misst hafa réttindi sem umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.
Niðurstaða álitsgerðarinnar er sú að „dvalarsveitarfélagi er ekki rétt að synja einstaklingi um fjárhagsaðstoð af þeirri einu ástæðu að réttindi hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd hafi fallið niður [...]
Þess í stað ber dvalarsveitarfélagi, að höfðu samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld ríkisins, að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki hlutaðeigandi eigi rétt til fjárhagsaðstoðar frá því á kostnað ríkissjóðs [...] meðan viðkomandi dvelur á landinu í kjölfar endanlegrar synjunar á umsókn um alþjóðlega vernd.“
Samkvæmt þessu áliti geta sveitarfélög ekki neitað hælisleitendum, sem fengið hafa endanlega synjun um alþjóðlega vernd, um aðstoð af þeirri einu ástæðu að réttindi hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd hafi fallið niður.
Sveitarfélögin eigi því, í samráði við stjórnvöld, að taka ákvörðun um hvort, hvaða aðstoð og að hvaða marki viðkomandi eigi að fá á kostnað ríkissjóðs.
Sveitarfélög hafa kvartað um það fyrr í vikunni að illa gangi að innheimta kostnað frá ríkinu vegna gistingar hælisleitenda. Ríkið hafi þá svarað til að sveitarfélögin hafi ekki átt að inna þjónustuna af hendi.
Höfundur álitsgerðarinnar bendir sérstaklega á það í álitsgerðinni að það falli utan marka áltisgerðarinnar að leysa úr því hvort og hvaða marki slíkur réttur kann að vera til staðar. Ekki skýrir álitsgerðin nánar hvernig ofangreint samráð milli ríkis og sveitarfélaga eigi að fara fram.
Í álitsgerðinni er fjallað um sérreglu í 15. gr. laga. nr. 40/1991 um fjárhagsaðstoð við erlenda ríkissborgara sem eiga ekki lögheimili á landinu.
Vakti álitsgerðahöfundur sérstaklega athygli á greinargerð sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 34/1997 þegar 15. gr. laga var breytt í núgildandi horf. Þar kemur fram að ákvæði um fjárhagsaðstoð eigi aðeins við í undantekningartilvikum, þá helst aðstoð til heimferðar.
„[…] Ákvæðið snýst um undantekningartilvik, um aðstoð við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu eins og áður kom fram. Rétt þykir að tiltaka sérstaklega að aðstoð þeim til handa sé einungis veitt í sérstökum tilfellum, ákvæðið feli með öðrum orðum í sér þrönga sérreglu. Hér er fyrst og fremst um að ræða aðstoð til heimferðar. Einnig getur í undantekningartilvikum verið um að ræða fjárhagsaðstoð vegna brýnna þarfa í skamman tíma. [...].“ 5
Friðrik Árni Friðriksson Hirst vann álitsgerðina fyrir forsætisráðuneytið og er hægt að lesa hana í heild sinni hér.
Fréttin hefur verið uppfærð