„Við ætlum ekki að skilja Öskjuhlíðina eftir sköllótta“

Sigrún Björk segir það ekki ætlun Isavia að höggva niður …
Sigrún Björk segir það ekki ætlun Isavia að höggva niður allan skóg í Öskjuhlíð. Samsett mynd

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Isavia Innanlandsflugvalla, segir það ekki ætlun Isavia að höggva niður allan skóg í Öskjuhlíð.

„Við ætlum ekki að skilja Öskjuhlíðina eftir sköllótta, eins og skilja mátti af myndunum sem borgin setti fram,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Raunveruleg ógn við flugöryggi

Hún segir stóra málið vera það að trjágróður í Öskjuhlíð sé nú raunveruleg ógn við öryggi flugs á Reykjavíkurflugvelli. Töluverð grisjun hafi átt sér stað fyrir allmörgum árum en síðan hefur einungis um tugur trjáa verið felldur á ári hverju. Hún segir það ekki nóg.

„Við höfum fylgst með trjánum reglulega og mælt þau reglulega. Við sjáum að þetta er komið í algert óefni núna. Það hefði þurft frekar stórfellda grisjun á hverju ári.“

Skoða þurfi annan gróður í staðinn

Sigrún Björk segir tilgang minnisblaðs Isavia í dag ekki síst þann að fá samtal við borgina um hvernig haga skuli málum.

„Við þurfum að hugsa um hvað getur komið í staðinn af öðrum gróðri sem er ekki jafn hraðvaxandi og grenitré. Eigum við að planta trjám annars staðar í borgarlandinu eða eigum við að planta öðruvísi skóg í staðinn? Er hægt að gróðursetja birki eða reynivið í stað grenitrjáa?“

Isavia fer ekki að fella tré

Hún segist engar skýringar hafa á því hvers vegna þetta mál hafi setið á hakanum hjá borginni.

„Líklegast væri enginn að spá sérstaklega í þetta ef við værum ekki að berja bjöllur á hverju einasta ári. Annars kannski gleymist þetta, enda víst nóg af öðrum verkefnum.“

Hún segir Isavia aldrei munu sjálft standa að skógarhöggi, heldur kallar á aðgerðir landeigandans Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert