Andlát: Halla Guðmundsdóttir Linker Aquirre

Halla Kristín Guðmundsdóttir Linker Aguirre.
Halla Kristín Guðmundsdóttir Linker Aguirre.

Halla Kristín Guðmundsdóttir Linker Aguirre, fyrrverandi aðalræðismaður Íslands í Los Angeles, lést á heimili sínu í Los Angeles 16. ágúst sl. 93 ára að aldri.

Halla fæddist í Reykjavík 10. maí 1930. Foreldrar hennar voru Guðmundur Árni Júlíus Þórðarson stýrimaður og Daðína Ólöf Þórarinsdóttir.

Halla lauk stúdentsprófi frá MR árið 1950. Um það leyti hittust þau Hal Linker á Hótel Borg, giftu sig skömmu síðar og bjuggu upp frá því í Bandaríkjunum. Í mörg ár ferðuðust þau hjón saman um allan heim ásamt Davíð syni sínum. Heimildarþættir þeirra um ferðalögin voru sýndir í sjónvarpi í Bandaríkjumum í 18 ár. Kvikmyndasafn þeirra er geymt í The Smithsonian Institution í Washington.

Hal Linker var aðalræðismaður Íslands í Los Angeles frá 1972 til 1979 þegar hann lést, en þá tók Halla við því starfi og gegndi því til ársins 1998. Halla sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 2001 að stundum hefði farið nokkur tími í ræðismannsstarfið en yfirleitt hefði það þó ekki verið tímafrekt. Helst hefði verið annríki kringum kosningar heima, en þá hefði líka verið gaman að taka á móti fólki, bjóða því upp á kaffi og spjalla við það um lífið og tilveruna.

„Ég átti margar góðar stundir í þessu starfi, enda eru Íslendingar upp til hópa alveg sérstaklega skemmtilegt fólk. Svo fylgdi þessu að ég mætti sem fulltrúi landsins á hinar ýmsu samkomur í borginni og það gat verið krefjandi, en um leið skemmtilegt. Ég hef alltaf verið geysilega stolt af því að vera Íslendingur, sagði Halla.

Halla og Hal voru bæði sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir kynningar sínar á landi og þjóð. Ævisaga Höllu, Uppgjör konu, kom út árið 1987.

Síðari eiginmaður Höllu er Francisco Aguirre. Sonur Höllu og Hals er Davíð hjartasérfræðingur og rannsóknarlæknir við háskóla Washington-ríkis í Seattle.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert