Boltinn hjá ríkinu í hælisleitendamáli

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eyþór

Ríkið þarf að leysa úr þeirri stöðu að hælisleitendur í ólögmætri dvöl sjái sér ekki farborða og lendi á götunni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra gengst við þessu í samtali við mbl.is.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segist skilja málið sem svo að boltinn sé hjá ríkinu, eftir að hafa átt fund með ráðherranum ásamt Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra nú í morgun. Mbl.is ræddi við Guðmund að fundinum loknum.

„Tel það ekki hafa verið mistök“

Ert þú sammála því að boltinn sé hjá ríkinu?

„Já, að sjálfsögðu er ríkið að leiða þetta. Það er alveg hárrétt. Við erum ánægð með að sveitarfélögin séu komin að því að ræða þessi mál við okkur. Ég bind vonir við að þeirra reynsla nýtist í því,“ segir Guðmundur.

Þegar lögin voru samþykkt var gert ráð fyrir því að sveitarfélögin gætu gripið þennan hóp. Voru það mistök?

„Ég tel það ekki hafa verið mistök. Það var byggt á lögfræðiáliti sem ég fékk hjá félagsmálaráðuneytinu, það var síðan kynnt fyrir allsherjar- og menntamálanefnd. Það eru fleiri álit í sömu átt. Ef þú lest nefndarálit meirihlutans þá er farið í gegnum þetta líka, vitnað bæði í félagsþjónustulögin og stjórnarskrána. Það er stjórnarskrárbundinn réttur þessa fólks að fá lágmarksþjónustu.“

Heiða Björg Hilmisdóttir eftir fundinn í dag.
Heiða Björg Hilmisdóttir eftir fundinn í dag. mbl.is/Eyþór

„Gengur ekki að hér sé fólk á götunni“

Guðmundur segir að burtséð frá því hvort deilt sé um ábyrgð og skyldur sé núna forgangsatriði að hjálpa því fólki sem hafi lent undir vegna núverandi réttarástands en síðan lögin tóku gildi hafa 53 misst þjónustu.

„Við erum öll sammála, sem sátum við þetta borð, um að það gengur ekki að hér sé fólk á götunni án matar og húsaskjóls. Núna er stóra verkefnið að leysa úr því.“

Er til skoðunar að opna búsetuúrræði?

„Við erum farin að velta fyrir okkur mismunandi lausnum. Það er eitthvað sem við viljum láta sérfræðinga koma með tillögur um. Nú eru sveitarfélögin tilbúin til þess að gefa okkur ráðgjöf og halda samtalinu áfram sem ég held að styrki þá vinnu sem er í gangi. Við reynum að vinna þetta eins hratt og vel og við getum enda er það mjög brýnt.“

„Fólk fær annað hvort já eða nei“

Hversu lengi haldið þið að núverandi ástand muni vara?

„Það er unnið eftir þeim lögum sem gilda, útlendingalögunum nýju. Auðvitað er markmið þeirra að við séum hér með kerfi þar sem fólk fær annað hvort já eða nei. Sumir fá neitun og eru þá í raun ólöglegir í landinu. Þeim ber að fara af landi brott samkvæmt lögum. Það er lögreglunnar að sjá til þess að það gerist, það gerist ekki alltaf einn tveir og þrír.“ 

„Við vonumst auðvitað til þess að breytingar á lögunum hafi þau áhrif að fleira fólk fari til baka þannig að hópurinn sem þetta á við um, sem neitar samstarfsvilja við stjórnvöld, er eins og staðan er í dag gerður brottrækur úr þeim búsetuúrræðum og þjónustu sem ríkislögreglustjóri er með, að sá hópur verði í fyrsta lagi lítill og fámennur,“ en í öðru lagi sé hópnum veitt sú þjónusta sem hann eigi rétt á.

„Mér finnst þetta ekki ásættanlegt“

„Við erum fara að ræða þessi mál með það að markmiði að leysa þetta. Samhæfingarnefnd um málefni flóttafólks, sem er styrkt af forsætisráðuneytinu er að samhæfa þessi mál og taka þær hugmyndir sem fram koma og reyna að móta tillögur,“ segir hann en þar sitja fulltrúar dómsmálaráðuneytisins og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

En hvernig slær það þig að fólk fari á götuna vegna þjónustumissis?

„Mér finnst þetta ekki ásættanlegt. þess vegna er ég að stíga inn í þetta til þess að finna lausnir með mínu góða fólki. Ég er sannfærður um að við finnum lausn og hana verður að finna sem allra fyrst.“

Verður lausnin á vegum ríkisins?

„Við verðum að sjá til hvernig útfærslan verður. Ég get ekki tjáð mig um það akkurat núna. En það er alveg ljóst í mínum huga að ríkið verður að hafa frumkvæðið að því að leysa þetta mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert