Dagur tjáir sig um trén í Öskjuhlíð

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að kallað verði eftir sjónarmiðum þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í tengslum við kröfu Isavia um að 2.900 tré verði felld niður í Öskjuhlíð.

Segir hann ljóst „að um er að ræða mikilvægt útivistarsvæði og einn elsta samfellda skóg innan borgarmarkanna. Ljóst er að þessa kröfu þarf að skoða vandlega enda nýtur Öskjuhlíðin verndar í deiliskipulagi, er skilgreind sem borgargarður í aðalskipulagi og er auk þess á náttúruverndarskrá,“ skrifar Dagur í færslu sem var birt á Facebook. 

Borgin staðið við sitt 

Þá sendir Dagur þeim flugmönnum og talsmönnum flugs tóninn sem segja borgina ekki hafa uppfyllt samninga sem gerðir hafa verið í tengslum við flugvöllinn. Beinir hann mönnum þess í stað að fara með umkvartanir sínar til ríkisins.

„Margir samningar hafa verið gerðir um Reykjavíkurflugvöll, sjá meðfylgjandi. Þar er kveðið á um fjölmargt: svo sem stækkun flugstjórnarmiðstöðvar, gerð deiliskipulags fyrir aðflugsljós og trjáfellingar þegar þriðju braut vallarins væri lokað. Öll þessi atriði - sem kölluðu á aðkomu borgarinnar - hefur hún efnt. Ráðist var í fellingu á 140 trjám árið 2017 á grunni tillagna sem sátt var um í samræmi við samninga frá 2013.

Ekkert af þessu komið til framkvæmda 

Hins vegar segir Dagur ríkið draga lappirnar. „Þau atriði sem lúta að ríkinu/Isavía eru hins vegar: að gera nýjan æfinga-, kennslu- og einkaflugvöll "eins fljótt og verða má", færa flugvallargirðingu að skilgreindu öryggissvæði að loknu gerð deiliskipulags og endurskoða skipulagsreglur Reykjavíkurflugvallar á grunni samninga. Ekkert af þessu hefur þó komist til framkvæmda þótt tíu ár séu liðin frá samningunum og Reykjavíkurborg hafi rekið á eftir málum," segir Dagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka