Engin úrræði enn sem komið er

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, …
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að fundi loknum. mbl.is/Eyþór

„Það er al­veg ljóst í mín­um huga að það er and­stætt mark­miðum þess­ara laga að fella niður þjón­ustu hjá hópi og ætla svo bara að veita hana einhvers staðar ann­ars staðar,“ seg­ir Guðrún Haf­steins­dótt­ir, dóms­málaráðherra.

Í sam­tali við mbl.is ít­rek­ar ráðherr­ann að ráðuneytið telji það ekki á ábyrgð sveitarfélaganna að grípa hæl­is­leit­end­ur sem ríkið hef­ur svipt þjón­ustu. Hún seg­ir þörf á tak­mörkuðu bú­setu­úr­ræði en gat ekki svarað spurn­ing­um blaðamanns um hvaða hús hæl­is­leit­end­ur hefðu í að venda á meðan eng­in úrræði eru til reiðu.

Fundað með fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra og SÍS

Dóms­málaráðherra fundaði í dag með Guðmundi Inga Guðbrands­syni, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra, Heiðu Björg Hilm­is­dótt­ur, for­manni Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga (SÍS) og Regínu Ásvaldsdóttur, formanni Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Formaður SSH boðaði til fundarins.

Guðmund­ur Ingi hef­ur haldið því fram að sveit­ar­fé­lög­in geti gripið inn í og veitt hæl­is­leit­end­um aðstoð þegar ríkið hef­ur svipt þá fé­lagsþjón­ustu, sam­kvæmt 15. gr. sveit­ar­stjórn­ar­laga. 

Eins og greint hef­ur verið frá missa þeir hæl­is­leit­end­ur sem hafa hlotið synj­un um alþjóðlega vernd alla þjón­ustu þegar 30 dag­ar eru liðnir frá synj­un. Eru þeir þá án kenni­tölu, rétt­inda og allra úrræða. 

Þarf að vera samstarfsvilji til heimferðar

Guðrún segir fundinn hafa gengið ágætlega en að enn hafi ekki verið komist að niðurstöðu um hvaða úrræði fólki verði boðin. Þó liggi það skýrt fyrir að hennar mati að það sé ekki sveitarfélaganna að sinna fólki sem hafi verið vísað úr landi en að samtalinu verði haldið áfram með ráðgjöf sveitarfélagana. 

„15. grein á eingöngu við í algjörum undanþágutilfellum og henni hefur verið beitt t.d. þegar ferðamaður í ákveðnu sveitarfélagi glatar ferðaskilríkjum sínum. Þá er alltaf samstarfsvilji viðkomandi til heimferðar.“

„Þó svo að hér séu einstaklingar sem sviptir hafa verið þjónustu þá þarf enginn að vera húsnæðislaus eða matarlaus, því stjórnvöld útvega fólki öruggt húsnæði og fæði gegn því að fólk sýni samstarfsvilja til brottfarar,“ segir Guðrún.

Leggur til takmarkað búsetuúrræði

Aðspurð hvað verði þá um fólk sem ekki vill yfirgefa landið  segir Guðrún að hún leggi til búsetuúrræði með takmörkunum. Það kunni að innibera að fólk sé ekki að fullu frjálst ferða sinna og þurfi ýmist að vera með útivistartíma og skrá sig inn og út til að yfirgefa úrræðið á daginn. 

„Fólk á þau rétt­indi að koma hingað og sækja um vernd og þegar stjórn­völd hafa metið það sem svo að fólk hafi ekki rétt á þess­ari vernd að þá hef­ur fólk skyld­ur á móti til þess að lúta þeirri niður­stöðu.“

Aðspurð hvað verði um þá sem þegar hafa verið svipt­ir fé­lagsaðstoð á meðan eng­in úrræði séu til reiðu og hvort ekki séu uppi áhyggj­ur um stór­auk­inn heim­il­is­leysis­vanda í kjöl­far úrræðal­eys­is­ins, eins og dæmi hafa sýnt er­lend­is, svar­ar ráðherr­ann: 

„Það er sam­tal í gangi.“ 

13:51: Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert