Fráveita sveitarfélögum dýr

Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir að staða frárennslismála sé …
Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir að staða frárennslismála sé atriði sem öll sveitarfélög þurfi að hafa í huga og þurfi að leggja aukið fjármagn í. mbl.is/Golli

Í úttekt Umhverfisstofnunar kemur fram að umtalsverð verðmæti séu falin í seyru, sem eru þau óhreinindi sem skilin eru frá fráveituvatni. Enn sem komið er sé þó lítið um að seyru sé safnað. Einungis þrír þéttbýlisstaðir hafi skilað upplýsingum um magn seyru, þ.e. Egilsstaðir, Garðabær og Hveragerði, sem hafi numið um 154 tonnum eftir þurrkun á einu ári.

Verðmæti seyru eru fólgin í því að hún er full af lífrænu efni og næringarefnum á borð við köfnunarefni og fosfór sem fer til spillis þegar skólp er losað í sjó. „Náttúrulegar fosfórbirgðir jarðar eru takmarkaðar og því er mikilvægt að huga betur að nýtingu þessarar auðlindar t.d. til landgræðslu eða gasframleiðslu í stað urðunar,“ segir í úttekt Umhverfisstofnunar.

„Það er víða pottur brotinn í fráveitumálum sveitarfélaga,“ segir Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, sviðsstjóri umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun. Hreinsun fráveitu sé víðast hvar ábótavant. Aðalbjörg segir að Umhverfisstofnun hafi hvatt sveitarfélögin til að setja fram áætlanir um forgangsröðun framkvæmda sem séu dýrar og það taki nokkur ár að koma fráveitumálum á Íslandi í ásættanlegt horf.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur hvatt sveitarfélögin á starfssvæði embættisins til að setja umbætur í frárennslismálum í forgang. Jafnframt að ríkisvaldið leggi fé af mörkum til að gera úrbætur þar sem um sé að ræða eitt af stærstu umhverfismálum samtímans.

Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir að staða frárennslismála sé atriði sem öll sveitarfélög þurfi að hafa í huga og þurfi að leggja aukið fjármagn í. „Þetta er mörgum ofviða,“ segir hún og ljóst sé að meira fjármagn þurfi að setja í málaflokkinn til að uppfylla þær kröfur sem eru gerðar. Átaks sé þörf. „Þetta er mjög mikilvægt verkefni sem við þurfum að takast á við.“

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert