Gefa út viðbragðsáætlun vegna Öskjusvæðis í dag

Jarðvísindamenn við mælingar á Öskjusvæði.
Jarðvísindamenn við mælingar á Öskjusvæði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almannavarnir hyggjast gefa út viðbragðsáætlun vegna mögulegs eldgos á Öskjusvæði norðan við Vatnajökul í dag. Um er að ræða mikið sprungusvæði og stórt landsvæði er undir.   

Lögregluumdæmið á Norðurlandi eystra hafði veg og vanda af áætluninni sem sett verður á vefsvæði almannavarna síðar í dag en vinna við hana kláraðist í gær. Þá er lögreglan á Suðurlandi að vinna að viðbragðsáætlun vegna landrissins við Torfajökul.

Báðar eldstöðvar eru nærri vinsælum gönguleiðum útivistarfólks. 

Óháð því hvernig gos er um að ræða

„Viðbraðsáætlanir taka til þess hvernig almannavarnarkerfið er ræst og til hvaða fyrstu viðbragða er gripið óháð því hvaða aðstæður eru uppi og hvernig gos er um að ræða,“ segir Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri hjá almannavörnum.  

Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarna.
Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarna. Ljósmynd/Almannavarnir

Hann segir þetta í raun fyrsta stöðumat á aðstæðum. Snöggt stöðumat sem gripið er til. Í framhaldinu er svo farið í það að meta aðstæður. Hvernig gos er um að ræða og hvort grípa þurfi til rýminga eða annarra aðgerða.

Gríðarstórt svæði undir 

Spurður hvort fleiri áætlanir séu í bígerð segir Sólberg að sífellt sé verið að kanna aðstæður og meta hvort þörf sé á að setja upp nýjar áætlanir ef mælingar sýna óróa á ákveðnum svæðum. 

„Svæðið sem er undir hjá Öskju er stórt. Það er ekki bara horft til öskjunnar sjálfrar heldur er mjög víðfemt svæði undir og sprungusvæðið sem er þar er mjög stórt,“ segir Sólberg.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka