Grímsvötn í hærri stöðu en fyrir síðasta gos

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. Þarna gæti …
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. Þarna gæti næsta gos orðið þótt erfitt sé að slá hlutunum föstum á vettvangi jarðvísinda. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Landris í Öskju hefur verið nokkuð stöðugt síðan það byrjaði og það er ekkert lát á því,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum, í samtali við mbl.is í yfirferð um nokkrar eldstöðvar og stöðu þeirra.

Segir Benedikt risið í Öskju líklega nema um 80 til 90 sentímetrum sem sé drjúgt, „en menn þurfa að átta sig á því að hún hefur verið að síga áður og hún er ekki komin í sömu hæð núna og þegar hún byrjaði að síga '72 eða '73, hún á alveg hálfan metra í að ná því“, segir hann.

Benedikt telur ekki mikilla tíðinda von frá Öskju næstu mánuði fyrir utan að búast megi við að landrisið haldi áfram. „Ef eitthvað meira fer að gerast munum við sjá stóraukna skjálftavirkni, aukinn jarðhita og fleiri merki.“

Benedikt ræðir fræði sín við sjónvarp mbl.is um miðbik júlímánaðar.
Benedikt ræðir fræði sín við sjónvarp mbl.is um miðbik júlímánaðar. Skjáskot/mbl.is

Sprengigosi nýlokið

Telur Benedikt að þar yrði sprengigos? „Nei, það er ósennilegt, yfirleitt kemur basísk kvika upp úr Öskju en þó einstaka stór sprengigos en það gerist á eitt til tvö þúsund ára fresti,“ svarar hann. Síðasta sprengigos hafi verið á átjándu öld svo ekki er líklegt að lesendur þessara lína lifi sprengigos í Öskju.

„Síðasta gos var '62 og þetta eru yfirleitt basísk hraungos svo það er langlíklegast að við séum að fara að sjá eitthvað slíkt,“ segir jarðeðlisfræðingurinn.

Askja í öllu sínu veldi. Þar nemur landris nú tæpum …
Askja í öllu sínu veldi. Þar nemur landris nú tæpum metra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður spyr út í Torfajökul og öskju hans, nokkuð sem ekki hefur farið hátt í almennri umræðu á vettvangi eldgosa og jarðhræringa. Þar hefur land þó risið í öskjunni undanfarið en Benedikt vill ekki gera mikið úr því.

„Þetta byrjaði einhvern tímann í júní og þetta er ekki í fyrsta skipti sem við sjáum þetta. Askjan hefur sigið og risið á víxl,“ segir hann og bætir því við að þarna sé nú ekki virkasta eldstöð landsins. Þó sé hún virk, þar hafi síðast gosið um miðbik fimmtándu aldar. „Hún hefur svolítið verið að gjósa þegar önnur eldfjöll eru að pota í hana, eins og Bárðarbunga og Hekla til dæmis,“ útskýrir Benedikt.

Drottning íslenskra eldfjalla

Hekla er að þenjast út og hefur verið að því síðan í síðasta gosi, á útmánuðum 2000. „Þeim mun lengur sem hún þenst út, því stærra verður næsta gos og Hekla er þannig að hún byrjar að gjósa með engum fyrirvara eða mjög litlum fyrirvara,“ segir Benedikt.

Hekla hefur þanist stöðugt út frá aldamótum, án þess þó …
Hekla hefur þanist stöðugt út frá aldamótum, án þess þó að gjósa. Benedikt segir drottningu íslenskra eldfjalla jafnan gjósa fyrirvaralaust eða að minnsta kosti með litlum fyrirvara. mbl.is/Árni Sæberg

Grímsvötn er eldstöð sem jarðeðlisfræðingurinn telur að geti hæglega gosið á næstu árum. „Grímsvötn eru komin í hærri stöðu en þau voru í fyrir síðasta gos,“ bendir hann á, „skjálftavirknin er smám saman að aukast og miðað við söguna er það yfirleitt undanfari goss, smávaxandi skjálftavirkni,“ segir Benedikt og játar aðspurður að Grímsvötn gætu vel orðið næst á goslistanum.

„Það þyrfti ekkert að koma á óvart en það er erfitt að segja, Holuhraunsgosið 2014 hafði gríðarleg áhrif á Grímsvötn sem gæti valdið því að eldstöðin hagi sér öðruvísi núna en í fortíðinni. Ef hún heldur áfram að haga sér eins og hún hefur verið að gera er ekki mjög langt í gos þar, ekki mörg ár,“ segir hann af Grímsvötnum.

Á sextán kílómetra dýpi

Lokaspurning fjallar um Reykjanesskagann og yfirborðsbreytingar þar upp á síðkastið.

„Í gosinu sáum við sig sem svo stoppaði þegar gosinu lauk og það er bara ekki liðinn nógu langur tími til að við sjáum hvort landris er byrjað aftur, það tekur dálítinn tíma að sjá það,“ svarar Benedikt, „kvikan er á miklu dýpi, hún safnast fyrir á sextán kílómetra dýpi en þetta gerist mjög hægt og þú verður að gefa mér einn mánuð eða tvo áður en ég get sagt nokkuð um hvort landris er byrjað þar aftur.“

Fólk við gosstöðvarnar við Litla-Hrút þar sem heldur betur dró …
Fólk við gosstöðvarnar við Litla-Hrút þar sem heldur betur dró til tíðinda í sumar. Nú er hins vegar rólegt yfir Reykjanesskaganum en meira að gerast úti í sjó segir Benedikt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hins vegar segir Benedikt fjörugast á Reykjaneshryggnum en þar sem hann er á hafsbotni er litlar mælingar þaðan að hafa og aðeins hægt að meta stöðuna með því að fylgjast með skjálftavirkni á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert