Vinnumálastofnun mun leigja Hótel Glym í Hvalfjarðarsveit í allt að 24 mánuði til að hýsa allt að 80 umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Mun Vinnumálastofnun fá hótelið afhent 1. október og kveður samningurinn á um að þeir hafi hótelið á leigu í hið minnsta 18 mánuði en allt að 24 mánuði. Hótel Glymur er með 4,5 stjörnur af 5 mögulegum á Booking.com og af því að dæma er hótelið ágætt. Þetta kemur fram á vef Hvalfjarðarsveitar.
Í tilkynningu segir að ekki liggi fyrir hver samsetning hópsins verði en að þeir séu með samning við Öryggismiðstöðina sem sé með starfsmenn í öllum húsnæðum á vegum stofnunarinnar til að tryggja öryggi og þjónustu.
Nokkrum sinnum í viku mun stofnunin svo sjá skjólstæðingunum fyrir samgöngum til Akraness.
Einnig segir í tilkynningunni:
„Stofnunin er með samning við Rauða krossinn á Íslandi um virkni fyrir umsækjendur og óskað verður eftir slíkum úrræðum á staðinn. Stofnunin mun einnig kanna áhuga nærsamfélagsins á virkniúrræðum eða öðru er hentað getur inn í húsnæðið sem og að ræða við símenntunarmiðstöðvar/fræðslumiðstöðvar um virkni.“