Lögregla var kölluð að verslun í Kópavogi um kvöldmatarleytið í kvöld þar sem átök höfðu brotist út og voru tveir handteknir á vettvangi. Ekki er vitað um meiðsli þeirra er hlut áttu að máli en varðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins staðfestir við mbl.is að sjúkrabifreið hafi verið send á vettvang.
Sinnti lögregla ýmsum fleiri verkefnum í dag svo sem almennt og má þar nefna búðarhnupl í hverfi 101 í Reykjavík, skemmdarverk á bifreið í hverfi 105 auk þess sem tilkynnt var um borgara sem svaf ölvunarsvefni úti við í hverfi 108.
Þá var rúða brotin í hverfi 109 auk þess sem tilkynning barst um brunalykt í sama hverfi og reyndist hún berast frá millistykki sem var í sambandi. Umferðaróhapp varð í Mosfellsbæ en engin slys á fólki.