Jóhannes Rúnar Jóhannsson héraðsdómari var langlaunahæstur í stétt lögfræðinga hér á landi í fyrra og með rúmlega fimmfalt hærri tekjur en sá næsti á listanum. Mánaðartekjur Jóhannesar námu samtals 25,9 milljónum, en næstur á eftir honum var Ástráður Haraldsson sem nýlega var skipaður ríkissáttasemjari, eftir að hafa verið settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA. Áður hafði Ástráður einnig starfað sem héraðsdómari. Tekjur Ástráðs í fyrra voru 4,7 milljónir á mánuði.
Greint er frá þessu á vb.is, en hægt er að nálgast Tekjublað Frjálsrar verslunar hér.
Ástráður og Jóhannes eiga það sammerkt að hafa verið í miðju Landsréttarmálsins svokallaða á sínum tíma, en báðir voru þeir á lista matsnefndar um 15 hæfustu umsækjendurna þegar Landsréttur var stofnaður. Þáverandi dómsmálaráðherra ákvað hins vegar að víkja frá niðurstöðu matsnefndarinnar um hæfi dómara og gekk fram hjá þeim tveimur og tveimur öðrum umsækjendum. Höfðuðu þeir í kjölfarið mál sem endaði með því að Hæstiréttur sýknaði íslenska ríkið um viðurkenningu á skaðabótakröfu, en ríkið var hins vegar dæmt til að greiða þeim 700 þúsund hvorum í miskabætur.
Þriðji á lista yfir hæstlaunuðu lögfræðinga landsins er Arnaldur Jón Gunnarsson, lögfræðingur hjá Kaupþingi með 4,4 milljónir á mánuði.
Þrír núverandi eða fyrrverandi hæstaréttardómarar komast á lista 10 hæstlaunuðu lögmanna síðasta árs, en það eru þeir Sigurður Tómas Magnússon, sem er núverandi dómari, og Viðar Már Matthíasson og Helgi Ingólfur Jónsson, sem báðir eru fyrrverandi dómarar við réttinn.
Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Arion banka, er eina konan sem kemst á lista 10 hæstlaunuðu lögmanna ársins í fyrra samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar.