„Okkar skoðun er eindregin sú að það sé verkefni ríkisins að þjónusta þetta fólk,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og á þá við fólk sem hefur misst rétt á þjónustu vegna höfnunar á umsókn um alþjóðlega vernd.
„Ég heyri að það eru mismunandi skoðanir innan ríkisstjórnarinnar á milli ráðuneyta,“ segir Heiða eftir fund með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Guðmundi Inga Kristjánssyni, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, um málefni hælisleitenda sem lenda á götunni eftir þjónustumissi.
Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks telur sveitarfélögunum ekki skylt að sinna þeim hópi en félags- og vinnumarkaðsráðherra Vinstri grænna telur sveitarstjórnarlög kveða á um hið gagnstæða.
„Ríkið hefur upplýsingar um þennan hóp, hann hefur verið í búsetu hjá því og þjónustan er í sjálfu sér á vegum ríkisins. Okkur finnst eðlilegt að það haldi áfram.“
Regína Ástvaldsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, óskaði eftir fundinum sem Heiða segir hafa gengið ágætlega.
„Þessi fundur var ágætur og gott að tala saman. Ég heyri að það eru mismunandi skoðanir innan ríkisstjórnarinnar á milli ráðuneyta. En okkar afstaða er alveg skýr. Ég held það væri langfarsælast að þetta væri á einum stað og að ríkið klári þetta, þar sem þetta er innan þess kerfis sem er ekki sveitarfélaganna að sinna,“ segir hún, enda hafi fólkið ekki heimild til að dvelja hér.
15. gr. sveitarstjórnarlaga, sem félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra vísar til, fjallar um undantekningartilfelli að mati sveitarfélaganna og getur ekki átt við um hælisleitendahópinn þar sem hann hafi ekki lögheimili á Íslandi. Tilgangur laganna hafi ekki verið að grípa þann hóp.
Hefur ríkisstjórnin farið á þess leit við sveitarfélögin að heimildir þeirra til þess að taka við þessum hóp verði rýmkaðar?
„Nei, það má segja að slíkar viðræður hafi ekki átt sér stað. Við ræddum það auðvitað í morgun og það er okkar skilningur að eftir sem áður, þótt útlendingalögin hafi breyst þá hafi félagsþjónustulögin ekki breyst. Þetta væri þá í miklum undantekningartilfellum, í einhverjum sérstökum afmörkuðum einstaklingum sem slíkt væri. En almennt er þetta ekki hlutverk sveitarfélaganna.“