Öryggi og mannleg reisn í hættu

Frá mótmælastöðu hælisleitenda í október í fyrra þar sem þess …
Frá mótmælastöðu hælisleitenda í október í fyrra þar sem þess var krafist að íslenska ríkið hætti að vísa hælisleitendum frá landi, að þeir fengju umsóknir sínar samþykktar í kerfinu og að hælisleitendum á Íslandi yrði veitt atvinnuleyfi og fullt aðgengi að íslenska heilbrigðiskerfinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega tuttugu góðgerðarfélög og félagasamtök, auk biskups Íslands, lýsa þungum áhyggjum af stöðu flóttafólks á landinu og hafa boðað til samráðsfundar um málefni þess í húsnæði Hjálpræðishersins á mánudaginn.

Segir í fréttatilkynningu frá hlutaðeigandi að áhyggjur þeirra snúist um fólk á flótta sem vísað hafi verið úr allri þjónustu opinberra aðila eftir neikvæða niðurstöðu um vernd á báðum stjórnsýslustigum. „Afdrif þess, öryggi og mannleg reisn eru í hættu,“ segir þar.

Villandi og óljóst

Harmi samtökin að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða. Eins leiki mikill vafi á að framkvæmd stjórnvalda standist þær mannréttindaskuldbindingar sem þau hafi undirgengist.

„Margt sem ráðamenn hafa sagt í þessari umræðu er villandi, óljóst og byggir á skorti á upplýsingum um raunverulega stöðu fólksins.

Samtökin skora á yfirvöld að tryggja öryggi þessa hóps, mannréttindi og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök,“ segir í tilkynningunni.

Er að lokum boðað til samráðsfundarins á mánudaginn sem fyrr segir, í sal Hjálpræðishersins á Suðurlandsbraut, og óska aðstandendur fréttatilkynningarinnar sérstaklega eftir viðveru hlutaðeigandi ráðherra í ríkisstjórninni.

Ath. Fundurinn er ekki opinn, hann er ætlaður þeim sem að honum standa, fjölmiðlum og ráðherrum viðeigandi málaflokka.

Eftirtaldir lýsa áhyggjum sínum og boða til fundarins:

Barnaheill

Biskup Íslands

FTA – félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd

Geðhjálp

GETA hjálparsamtök

Hjálparstarf kirkjunnar 

Hjálpræðisherinn á Íslandi

Íslandsdeild Amnesty International

Kvenréttindafélag Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands

No Boarders

Prestar innflytjenda, þjóðkirkjunnni

Rauði krossinn á Íslandi

Réttur barna á flótta

Samhjálp

Samtökin 78

Solaris

Stígamót

UNICEF á Íslandi

UN Women á Íslandi

W.O.M.E.N. – samtök kvenna af erlendum uppruna

Þroskahjálp

ÖBÍ - heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert