Starfsfólk Reykjavíkurmaraþonsins stóð í ströngu við að útdeila rásnúmerum í gær enda þátttaka góð í ár, um 11.000 hlauparar eru skráðir og uppselt í hálfmaraþon.
129 milljónir króna höfðu safnast í áheit þegar Morgunblaðið ræddi við Hrefnu Hlín Sveinbjörnsdóttur viðburðarstjóra í gærkvöldi.
Valdimar Sverrisson lætur sem fyrr engan bilbug á sér finna og hleypur nú sitt sjötta tíu kílómetra hlaup. Valdimar er blindur og hleypur eins og áður í fylgd Jósteins Einarssonar en Valdimar sagði í viðtali við mbl.is árið 2019 að hans helsta takmark væri að koma Jósteini í mark.
Valdimar sótti sitt númer í gömlum Elvis-búningi, frá Las Vegas-tímabili kóngsins, en verið er að leggja lokahönd á hlaupabúninginn sjálfan, sagði Valdimar við Morgunblaðið í gærkvöldi. Hann hleypur til styrktar Grensásdeild Landspítalans.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.